Fótbolti

Sandra: Ég er í skýjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sandra Sigurðardóttir fékk tækifærið í marki íslenska kvennalandsliðsins í kvöld og hélt hreinu í 1-0 sigri á Kína. Hún var fyrsti íslenski markvörðurinn sem heldur markinu hreinu á Algarve-mótinu í ár.

Hilmar Þór Guðmundsson, starfsmaður KSÍ, tók Söndru í viðtal eftir leikinn.

„Ég er í skýjunum eftir þennan sigur, þetta er bara geggjað," sagði Sandra Sigurðardóttir kát en hún er markvörður hjá Íslandsmeistaraliði Stjörnunnar.

„Við vorum þéttar, héldum vel stöðunum, töluðum vel saman og vorum skipulagðar. Þær náðu ekkert að opna okkur sem er mjög flott," sagði Sandra en hefði hún ekki viljað hafa aðeins meira að gera.

„Ég er að sýna mig á ákveðin hátt með því að stjórna vörninni og því að við náðum að loka vörninni. Það er mjög jákvætt en auðvitað er alltaf gaman að fá eina og eina vörslu. Það skiptir samt ekki máli í svona leikjum," sagði Sandra.

Íslenska liðið tryggði sér sigurinn með marki Fanndísar Friðriksdóttur í uppbótartíma.

„Svona eru sigrarnir eiginlega sætastir að ná að stela þessu í lokin. Við náðum þessum sigri með seiglu og þolinmæði," sagði Sandra en íslenska liðið var þarna að vinna sinn annan leik í röð á mótinu.

„Það er frábært að ná að halda dampi eftir síðasta leik og ná að klára þennan. Þetta er mjög jákvætt," sagði Sandra en það er hægt að sjá allt viðtalið hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Fanndís: Þetta var algjörlega mitt mark

Fanndís Friðriksdóttir tryggði íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta sæti í bronsleiknum á Algarve-mótinu með því að skora sigurmarkið beint úr hornspyrnu í uppbótartíma leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×