Bílar

Nissan innkallar 1 milljón bíla

Finnur Thorlacius skrifar
Nissan Altima árgerð 2013.
Nissan Altima árgerð 2013.
Innkallanir bílframleiðenda vegna galla ætla engan endi að taka. Nú er það Nissan og bílarnir ekki færri en 1 milljón talsins, langflestir þeirra í Bandaríkjunum. Er það vegna galla í öryggispúðum farþegamegin í bílunum.

Bílgerðirnar sem gætu haft þennan galla eru Nissan Altima, Leaf, Pathfinder og Sentra af árgerðum 2013 og 2014, sem og leigubíllinn Nissan NV200 af árgerð 2013. Innköllunin nær líka til Infiniti bílanna JX35 af árgerð 2013 og Infiniti Q50 og QX60 af árgerð 2014.

Heildarinnköllunin nær til 1.053.479 bíla og eru 989.701 þeirra í Bandaríkjunum. Gallinn lýsir sér í tölvubilun sem getur metið það ranglega hvort setið er í farþegasætinu frammí bílunum eða ekki. Hættan við þetta er sú að við árekstur gæti búnaðurinn metið það svo að enginn sitji í sætinu og því myndi öryggispúðinn ekki blása út.  






×