„Um er að ræða fjögurra þátta seríu sem fjallar um knattspyrnu frá sjónarhorni dómarannna. Í þáttunum fylgjum við dómurunum eftir í undirbúningi þeirra. Við sjáum þá á æfingum, í leikjum og heyrum einnig hvað fer þeirra á milli á meðan leik stendur,“ segir Egill Arnar Sigurþórsson, framleiðandi þáttanna.
„Ætlunin er ekki að draga upp glansmynd af starfi þeirra heldur sýna hvernig þeir sinna starfinu og hvað þarf að leggja á sig til þess að ná alla leið í þriðja liðinu. Við höfum fengið einstakan aðgang að dómurum bæði í starfi og í einkalífinu og munu þættirnir án efa sýna hvernig er í raun og veru að sinna dómarastarfinu. Þeir eru umdeildir en engu að síður nauðsynlegir.“
Í fyrsta þætti, sem frumsýndur verður á Stöð 2 Sport klukkan 21.00 eftir leik KR og Stjörnunnar í Dominos-deild karla í körfubolta, er Þóroddi Hjaltalín Jr. fylgt eftir sumarið 2012.
Þóroddur átti ekki gott tímabil þetta sumar en fékk engu að síður að dæma bikarúrslitaleikinn sem þótti vekja furðu. „Við fáum innsýn inn í hugsanlegar ástæður þess að honum gekk ekki vel til að byrja með,“ segir Egill ARnar.
Rætt er við fjölda dómara í þáttunum, karla og konur, og var einnig farið til Bretlands og rætt við tvo af bestu dómurum heims: HowardWebb og MarkClattenburg.
Leikstjóri er Heiðar Mar Björnsson.
Í spilaranum hér að ofan má sjá stiklu fyrir þáttinn.


