Handbolti

Akureyringar í viðræðum við Kukobat

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jovan Kukobat er með betri markvörðum deildarinnar.
Jovan Kukobat er með betri markvörðum deildarinnar. Vísir/Stefán
Akureyri Handboltafélag vonast til að halda serbneska markverðinm JovanKukobat hjá félaginu.

Núgildandi samningur markvarðarins rennur út í sumar en Heimir Örn Árnason, þjálfari Akureyrar, sagði í samtali við Vísi að félagið stæði í samningaviðræðum við Kukobat og vonast væri til að gengið yrði frá málum sem fyrst.

Kukobat var einn besti leikmaður Akureyrarliðsins í vetur en það hafnaði í sjötta sæti Olís-deildarinnar eftir magnaðan lokasprett þar sem liðið vann þrjá leiki, gerði tvö jafntefli og tapaði aðeins tveimur af síðustu sjö.

Akureyri á von einnig von á góðum liðsstyrk í júlí eins og vitað er en þá kemur SverreJakobsson, varnartröll íslenska landsliðsins, heim og verður spilandi þjálfari liðsins ásamt Heimi.

„Við erum aðeins að leita að mönnum til að styrkja liðið en annars spilum við bara frábæra vörn og fáum ekki á okkur mark með Sverre í vörninni," segir Heimir Örn léttur í bragði við Vísi.

Heimir Örn og Sverre þjálfa því liðið saman á næsta tímabili en ekki hefur verið algjörlega neglt hvernig samstarfinu verður háttað enda Sverre ókominn til landsins.

„Við gerum þetta saman, svipað og ég og Bjarni [Fritzson]. Ætli þetta verði ekki svona 51 prósent á móti 49 þar sem hann er líka leikmaður,“ segir Heimir Örn Árnason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×