Fótbolti

Sara Björk: Erum betri en þegar við mættum Sviss síðast

Tómas Þór Þórðarson skrifar
„Staðan er bara góð og stemningin líka,“ segir Sara Björk Gunnarsdóttir, miðjumaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, um leikinn gegn Sviss í undankeppni HM á fimmtudaginn.

Hilmar Þór Guðmundsson, starfsmaður KSÍ, er með í för og ræddi við Söru Björk eftir æfingu í dag.

„Hópurinn lítur vel út. Við erum allar ferskar, engin þreyta og við tilbúnar í leikinn. Það eru allir í fínasta formi. Sumar deildir eru byrjaðar en íslenska deildin ekki byrjuð. Allir eru í toppstandi,“ segir Sara en Ísland vann Ísrael og Möltu í síðustu tveimur leikjum á útivell.

„Við fengum góðan tíma saman á móti Ísrael og Möltu og við nýttum allan þann tíma. Við stóðum okkur vel á móti þeim og vonandi getum við nýtt okkur það í næstu leikjum.“

Sviss er á toppi riðilsins og sigurstranglegra fyrir leikinn á fimmtudaginn en svissneska liðið fór illa með það íslenska þegar þau mættust á Laugardalsvelli síðasta haust.

„Við erum allt annað lið en í síðasta leik gegn þeim. Það er allt öðruvísi stemning í liðinu. Þetta er mikilvægur leikur fyrir okkur til að komast í efsta sætið. Við erum búnar að bæta okkur mikið frá þeim leik þannig þetta verður góður leikur,“ segir Sara Björk en þarf að hafa góðar gætur á Ramonu Bachman, framherja Sviss og samherja Söru í Svíþjóð sem lék íslensku vörnina grátt á síðasta ári?

„Þær eru líka með aðra góða leikmenn í liðinu. Fyrst og fremst verðum við að einbeita okkur að okkur sjálfum. Við þurfum að passa okkur á henni en um leið og við getum spilað inn á okkar styrkleika nær hún ekki að nýta sína,“ segir Sara Björk Gunnarsdóttir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×