Lífið

Hver tekur mark á veðbönkum?

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Framlag Íslendinga í Eurovision, Enga fordóma eða No Prejudice með Pollapönki, kemst ekki upp úr undankeppninni í kvöld ef marka má líkur í hinum ýmsu veðbönkum. Framlag Armeníu, lagið not Alone sem Aram MP3 flytur, er hins vegar talið sigurstranglegast í keppninni. Fast á hæla þess fylgir sænska lagið Undo með Sönnu Nielsen.

Það gæti því verið afar arðvænlegt fyrir bjartsýna Íslendinga að veðja á Pollapönkara því ef svo færi að þeir myndu vinna Eurovision gætu þeir sem hafa veðjað á strákana allt að 400-faldað peninginn. Ef settir eru peningar á Armeníu eða Svíþjóð gæti upphæðin hins vegar bara tvö- eða þrefaldast.

Aðrar þjóðir sem þykja sigurstranglegar að mati veðbanka eru Bretland, Úkraína, Ungverjaland og gestgjafarnir Danir.

Á botninum með Íslandi eru hins vegar Albanía, Makedónía, Georgía, Portúgal og San Marínó.

Valgeir Magnússon, sem er með íslenska Eurovision-hópnum í Kaupmannahöfn, tekur ekki mikið mark á þessum spám.

„Ég hef ekki góða reynslu af því að fylgjast með veðbönkum. Ég hef bæði unnið við atriði sem hafa verið efst og neðst í veðbönkum. Í hvorugt skiptið höfðu veðbankar rétt fyrir sér,“ segir hann.

Spá veðbankanna er í takt við alþjóðlega OGAE-könnun sem gerð er meðal aðdáenda keppninnar í Evrópu. Þar er Íslandi spáð 31. sæti af þeim 37 löndum sem taka þátt. Í fyrsta sæti í könnuninni er Svíþjóð, í öðru Ungverjaland og í því þriðja Ísrael. Portúgal, Albaníu og Litháen er hins vegar spáð neðstu sætunum.


Tengdar fréttir

Pollrólegir baksviðs

Generalprufa fyrir fyrra undanúrslitakvöld Eurovision var í gærkvöldi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×