Sport

McIlroy og Wozniacki slitu trúlofuninni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Kylfingurinn Rory McIlroy og tennisstjarnan Caroline Wozniacki eru hætt saman en í morgun var tilkynnt að þau hefðu slitið trúlofun sinni.

„Vandamálið er hjá mér,“ sagði McIlroy í stuttri yfirlýsingu en boðskort í brúðkaup þeirra voru send út núna um helgina.

„Ég áttaði mig á því þegar boðskortin fóru út að ég væri ekki tilbúinn í hjónaband. Það er engin ein rétt leið til að enda samband sem hefur skipt okkur svo miklu máli,“ sagði hann enn fremur.

„Ég óska þess að Caroline fái alla þá hamingju sem hún óskar sér og þakka hennir fyrir þann frábæra tíma sem við áttum saman. Ég mun ekki tjá mig frekar um þetta mál.“

Þau tilkynntu um áramótin að þau hefðu trúlofað sig og þá skrifaði McIlroy á Twitter-síðu sína að hann hefði það á tilfinningunni að árið yrði frábært.

McIlroy er nú að undirbúa sig fyrir BMW PGA-mótið sem er hið stærsta á Evrópumótaröðinni. Wozniacki var áður í efsta sæti heimslistans í tennis en er nú í 13. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×