Íslenski boltinn

Þriðji sigurinn í röð hjá KA

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Bjarni Jóhannsson og lærisveinar hans ógna því að fara upp um deild.
Bjarni Jóhannsson og lærisveinar hans ógna því að fara upp um deild. vísir/getty
KA-menn gerðu góða ferð á Ásvelli í 8. umferð 1. deildar karla í fótbolta í kvöld þar sem norðamenn unnu öruggan sigur á Haukum, 3-0.

Stefán Þór Pálsson, lánsmaður frá Breiðabliki, skoraði fyrstu tvö mörkin á 23. og 70. mínútu áður en ArsenijBuinickij innsiglaði sigurinn á 74. mínútu.

Mörk Stefáns Þórs, sem skoraði tíu mörk fyrir Grindavík sem lánsmaður í 1. deildinni í fyrra, voru afskaplega lagleg.

Það fyrra skoraði hann með því að þruma boltanum viðstöðulaust í þaknetið úr teignum, en það síðara setti Stefán með því að taka við langri sendingu inn á teiginn og renna knettinum undir SigmarInga Sigurðarson í næstu snertingu.

KA lék manni færri frá 83. mínútu, en þá fékk Gauti Gautason sitt annað gula spjald. Það fyrra fékk hann þremur mínútum fyrr. Það kom engu að síður ekki að sök enda leikurinn unninn.

KA-menn eru á miklum skriði þessa dagana og hefur júnímánuður verið þeim gæfuríkur, annað en maímánuður. KA tapaði fyrstu þremur leikjum sínum í deildinni í maí en er taplaust í júní.

Sigurinn í kvöld var sá þriðji í röð hjá KA en í heildina er liðið búið að vinna fjóra og gera eitt jafntefli í síðustu fimm leikjum sem allir fóru fram í júní. Þrettán stig af fimmtán er uppskeran og liðið komið upp í fjórða sætið með 13 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×