Erlent

Al-Maliki styður aðgerðir sýrlenskra stjórnvalda

Randver Kári Randversson skrifar
Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks.
Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks. Vísir/AP
Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, staðfestir að þotur sýrlenska stjórnarhersins hafi gert loftárás á liðsmenn öfgasamtakanna ISIS í sýrlenska landamærabænum Qaim, sem er við landamæri Íraks og Sýrlands, á þriðjudag. Hann segir að þótt stjórnvöld í Írak hafi ekki óskað eftir árásinni þá styðji hann allar slíkar aðgerðir gegn ISIS.

Í viðtali við BBC sagði al-Maliki að ekkert samráð hafi verið milli sýrlenskra og íraskra stjórnvalda um framkvæmd árásarinnar. Hann sagði stjórnvöld Íraks og Sýrlands berjast í sitt hvoru lagi gegn uppreisnarmönnum og að sigur muni að lokum vinnast í báðum ríkjum.

Jafnframt sagði hann stjórnvöld hafa fest kaup á notuðum Sukhoi orrustuþotum frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi, og að þeim gæti verið beitt í átökunum í Írak innan nokkurra daga. Á föstudag ræddi al-Maliki við Vladimir Pútín, Rússlandsforseta, í síma og lýsti Pútín yfir fullum stuðningi við baráttu stjórnvalda gegn hryðjuverkamönnum í Írak.  


Tengdar fréttir

Bandaríkin ásaka Sýrlendinga um loftárásir

Bandarísk stjórnvöld ásaka sýrlenska ráðamenn um að hafa fyrirskipað loftárásir í vesturhluta Íraks nú á þriðjudag til að stöðva framgöngu uppreisnarmannanna sem ráða lögum og lofum í norðurhluta landsins.

Olíuhreinsistöðin í Bají á valdi Isis

Uppreisnarmenn súnníta í Írak undir forystu Isis samtakanna segjast hafa náð fullri stjórn á olíuhreinsistöðinni í Bají, norður af höfuðborginni Bagdad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×