Íslenski boltinn

Hörkuleikur á Kópavogsvelli

Anton Ingi Leifsson skrifar
Breiðablik og KR mætast í dag.
Breiðablik og KR mætast í dag. Vísir/Getty
Tveir leikir fara fram í Borgunarbikar-karla í dag, en leikirnir eru liðir í 8-liða úrslitum keppninnar.

Á Laugardalsvelli fer fram leikur Fram og Keflavíkur og hefst hann klukkan 19:15. Fram hefur lagt tvö 1. deildarlið á leið sinni í 8-liða úrslitin, þau KA og KV.

Keflavík hefur farið mun léttari leið í 8-liða úrslitin, en liðið sigraði Augnablik sem er í fjórðu deild og Hamar sem er á botninum í þeirri þriðju.

Í Pepsi-deildinni hefur liðunum gengið nokkuð ólíklega. Fram er í níunda sæti með jafn mörg stig, en Keflavík hefur byrjað að ágætis krafti og er með 16 stig í fjórða sæti.

Hinn leikurinn í 8-liða úrslitunum í dag er stórleikur milli Breiðabliks og KR. Þessi lið hafa marga hildina háð í gegnum tíðina, en fjögur sæti skilja liðin að í Pepsi-deildinni þessa stundina.

Breiðablik er í áttunda sæti með níu stig, en KR er að berjast á toppnum; í þriðja sæti með nítján stig.

KR hefur lagt FH og Fjölni að velli, á meðan Blikarnir lögðu granna sína í HK og Þórsara í framlengingu á leið sinni í 8-liða úrslit Borgunarbikarsins.

Báðir leikirnir verða að sjálfsögðu á Boltavaktinni, en leikur Breiðabliks og KR er einnig sýndur beint á Stöð 2 Sport og hefst útsending klukkan 19:45.

Leikir dagsins:

19:15 Fram - Keflavík

20:00 Breiðablik - KR (Beint á Stöð 2 Sport)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×