Erlent

Júnímánuður sá heitasti sem mælst hefur

Randver Kári Randversson skrifar
Vísir/Getty Images
Samkvæmt niðurstöðum Haf- og loftslagsrannsóknastofnun Bandaríkjanna var nýliðinn júnímánuður sá hlýjasti á jörðinni frá því mælingar hófust. Nýliðinn maímánuður var heitasti maímánuður sem mælst hefur.

Í skýrslu stofnunarinnar kemur fram að yfirborðshiti sjávar í júní hafi verið 0,64°C yfir meðaltali 20. aldar, sem er hæsti hiti sem mælst hefur í júní, og hæsti meðaltalshiti frá upphafi mælinga. Í grein á vefnum thinkprogress.org kemur fram að þessar niðurstöður komi heim og saman við mælingar japönsku veðurstofunnar, sem hafði einnig mælt nýliðinn júní sem þann heitasta sem mælst hefur og nýliðinn maí sem heitasta maímánuð í sögunni. Þá hafi NASA mælt maí á þessu ári heitasta maímánuð sem mælst hefur en júnímánuður hafi verið sá þriðji heitasti í sögunni.

Einnig segir í skýrslunni að áhyggjuefni sé að methiti hafi mælst á nokkrum stöðum á Grænlandi í síðasta mánuði. Til að mynda mældist 23,2°C hiti í Kangerlussuaq á suðvestur Grænlandi þann 15. júní síðastliðinn samkvæmt mælingum dönsku veðurstofunnar. Í þessu sambandi er tekið fram að ef ekki verði dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda þegar í stað sé aðeins spurning um hvenær en ekki hvort, verði óafturkvæm bráðnun á Grænlandsjökli, sem muni hafa hörmulegar afleiðingar.

Vakin er athygli á því að þessi hlýnun komi fram án þess að El Nino hafi látið á sér kræla, en flest reiknilíkön gerðu ráð fyrir að hann myndi hefjast með vorinu. Yfirleitt er það samspil undirliggjandi langtíma hlýnunar og hlýnunar af völdum El Nino sem veldur hækkun hitastigs á heimsvísu.

Því er talið næsta víst að hitamet haldi áfram að falla á næstunni þar sem áframhaldandi hlýnun jarðar og áhrifin frá El Nino koma saman, en bandaríska sjávar- og loftslags stofnunin telur um 70% líkur á að El Nino komi fram í sumar og um 80% líkur í  haust eða byrjun vetrar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×