Erlent

Hátt í 30 manns féllu í Bagdad

Randver Kári Randversson skrifar
Frá Bagdad.
Frá Bagdad. Vísir/AFP
Hátt í 30 létust í sprengjutilræðum í Bagdad höfuðborg Íraks í gær. Þetta eru mannskæðustu árásir  í borginni frá því uppreisnarmenn Súnníta, undir forystu öfgasamtakanna ISIS, lögðu undir sig stór svæði í í norðurhluta landsins í síðasta mánuði. Greint er frá þessu á vef Reuters.

Í fyrstu árásinni létust níu manns, þar af sjö lögreglumenn, þegar bíl hlöðnum sprengiefni var ekið inn í varðstöð lögreglunnar í suðurhluta borgarinnar. Nítján létust svo í fjórum bílasprengjuárásum víðs vegar um borgina í gær. Einn lést til viðbótar þegar sprengja sprakk í vegkanti í í suðurhluta Bagdad síðar um daginn.

Enginn hefur sagst bera ábyrgð á sprengjutilræðunum í gær en öfgasamtökin ISIS hafa lýst yfir ábyrgð á fjölmörgum  sjálfsmorðssprengjutilræðum í Bagdad að undanförnu, nú síðast á fimmtudag þegar sprengja varð þremur að bana í miðbæ borgarinnar.

Að minnsta kosti 5576 íraskir borgarar hafa nú fallið í átökum í landinu frá því í janúar þegar uppreisnarmenn súnníta lögðu undir sig borgina Fallujah í vesturhluta Íraks. Sameinuðu þjóðirnar áætla að yfir 1,2 milljónir manna hafi flúið heimili sitt vegna átakanna, þar af um helmingur frá því um miðjan júnímánuð.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×