Íslenski boltinn

Kjartan Henry: Ég trúi þessu varla

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kjartan Henry var hetja dagsins hjá KR.
Kjartan Henry var hetja dagsins hjá KR. vísir/AndriMarinó
„Þetta er draumi líkast, sérstaklega hvernig við kláruðum leikinn. Ég trúi þessu varla,“ sagði Kjartan Henry Finnbogason, hetja KR-inga, í samtali við Vísi eftir sigurinn á Keflavík í úrslitaleik Borgunarbikarsins. Kjartan, sem vann í dag sinn þriðja bikarmeistaratitil með KR, skoraði sigurmarkið þegar mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma.

Honum fannst KR-ingar vera með góð tök á leiknum, að byrjun leiksins undanskilinni.

„Við byrjuðum kannski ekki alveg nógu vel og þeir skoruðu eftir að við gerðum mistök. En markið var spark í rassinn fyrir okkur. Við jöfnuðum fljótlega og eftir það fannst mér þetta ekki vera spurning,“ sagði Kjartan og bætti við:

„Við pressuðum stíft á þá í seinni hálfleik, en við vissum að þeir væru alltaf hættulegir í skyndisóknum. Það er þeirra upplegg, að liggja til baka og sækja hratt, enda með fljóta menn frammi,“ sagði Kjartan sem skoraði markið eftir sendingu frá Gary Martin, en Englendingurinn lagði upp bæði mörk KR í dag.

„Það var alger draumur að ná að klára þetta svona,“ sagði framherjinn, en minnstu munaði að Jonasi Sandqvist, markverði Keflavíkur, tækist að verja skot Kjartans.

„Ég er nú búinn að vera að grínast með það að ég hefði viljað njóta þess að sjá boltann fara löturhægt yfir línuna. En inn fyrir fór hann og við munum fagna þessu á eftir,“ sagði Kjartan að lokum.


Tengdar fréttir

Kristján: Kjánalegt mark undir lokin

Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, var hundfúll í leikslok eftir 2-1 tap gegn KR, í úrslitaleik Borgunarbikarsins.

Rúnar: Kjartan Henry veit hvar boltinn kemur

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var kampakátur í leikslok þegar Guðjón Guðmundsson greip hann í viðtal strax eftir sigur KR á Keflavík í úrslitaleik Borgunarbikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×