Íslenski boltinn

Gerðist Eyþór Helgi sekur um kynþáttaníð?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eyþór Helgi Birgisson missir af næstu fimm leikjum Ólsara.
Eyþór Helgi Birgisson missir af næstu fimm leikjum Ólsara. vísir/daníel
Eyþór Helgi Birgisson, leikmaður Víkings Ólafsvíkur í 1. deild karla í fótbolta, var í gær úrskurðaður í fimm leikja bann af aga- og úrskurðarnefnd KSÍ á vikulegum fundi nefndarinnar.

Skýringin sem fylgdi úrskurðinum í gær var framkoma eftir brottvísun, en Eyþór Helgi fékk tvö gul spjöld með stuttu millibili í seinni hálfleik í leik gegn Grindavík um helgina.

Nú hefur KSÍ gefið það út að Ólsarar verða sektaðir vegna framkomu Eyþórs Helga um 100.000 krónur, en hann á að hafa brotið gegn 16. grein reglugerðar KSÍ um aga-og úrskurðarmál sem fjallað hefur verið um í dag vegna kynþáttaníðsins í Vestmannaeyjum.

„Hver sá sem misbýður öðrum einstaklingi eða hópi með fyrirlitningu, mismunun eða niðurlægingu í orði eða verki varðandi kynhneigð, kynferði, trúarbrögð, skoðanir, þjóðernisuppruna, kynþátt, litarhátt, og stöðu að öðru leyti skal sæta leikbanni í að minnsta kosti 5 leiki,“ segir í regluverki KSÍ.

Samkvæmt heimildum Vísis lét Eyþór Helgi miður falleg orð falla í garð aðstoðardómarans Viatcheslav Titov þegar hann fékk seinna gula spjaldið, en Titov er af rússnesku bergi brotin.

Ekki er farið nánar út í hvað Eyþór Helgi gerði af sér, en fyrr í sumar fékk leikmaður Víðis í Garði sömu refsingu og félagið sömu sekt þegar hann gerðist sekur um kynþáttaníð í garð mótherja.

Aðeins eru sjö umferðir eftir í 1. deild karla þannig Eyþór Helgi missir af miklu, en bann hans er mikið áfall fyrir Ólsara sem eru í harðri baráttu um sæti í úrvalsdeild á ný.


Tengdar fréttir

Eyþór Helgi dæmdur í fimm leikja bann

Sóknarmaðurinn var í dag dæmdur í fimm leikja bann af aganefnd KSÍ fyrir framkomu sína eftir að hafa fengið rautt spjald í tapleik gegn Grindavík um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×