Íslenski boltinn

Páll Viðar: Verð að telja leikmönnum trú um að þetta sé hægt

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Páll Viðar var niðurlútur að leik loknum.
Páll Viðar var niðurlútur að leik loknum. Vísir/Arnþór
„Það er súrt að berjast hér allan leikinn og fá ekkert út úr honum því mér fannst við leggja það mikið í hann að við áttum að fá eitthvað út úr honum,“ sagði Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs.

„Það er margt búið að vera grátlegt hjá okkur í sumar en það segir sig sjálft að fá mark svona í andlitið og fá ekkert út úr leiknum er jafn mikið og í leikjum sem við getum ekkert í og fáum á okkur þrjú, fjögur mörk í fyrri hálfleik.

„Við erum komnir langt niður. Það er löng brekka framundan. Þess vegna er alveg hægt að kasta inn handklæðinu þegar barátta er ekki til staðar,“ sagði Páll sem var allt annað en sáttur við aukaspyrnuna sem Stjarnan fékk undir lokin.

„Þetta var djók. Að mínu viti. Kannski fór þetta eins og þetta átti að fara. Taplausa liðið á móti liðinu með allt niðrum sig.

„Þetta er búið að vera okkar saga. Þetta er lýsandi hvernig þetta fellur með liðinu sem er búið að ganga vel hjá og enn meira mótlæti hjá liðinu sem er að berjast við botninn.

„Á meðan tölfræði leyfir okkur að halda í vonina þá boða ég í mína leikmenn að halda trú á meðan það er möguleiki. Þá verð ég að standa fremstur í flokki. Það kemur ekki til greina að ég verði fyrstur til að kasta inn handklæðinu.

„Ég vil að leikmenn trúi á verkefnið og vonandi náum við í þrjú stig í næsta leik sem er Fylkir og svo koll af kolli. Það eru sjö leikir eftir og mörg stig í boði en við erum kannski ekki Evrópumeistarar í útivallar árangri en við verðum að sjá til,“ sagði Páll Viðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×