Íslenski boltinn

Stjörnumenn komust upp að hlið FH | Fram skaust upp úr fallsæti

Kristinn Páll Teitsson skrifar
KR vann náðugan sigur á Keflavík.
KR vann náðugan sigur á Keflavík. Vísir/Arnþór
Pablo Punyed tryggði Stjörnunni gríðarlega mikilvæg 3 stig í 2-1 sigri á Þór í kvöld. Sigurmark Pablo kom í uppbótartíma úr glæsilegri aukaspyrnu en Þórsarar voru afar ósáttir með aukaspyrnudóminn.

Arnar Már Björgvinsson kom Stjörnumönnum yfir í fyrri hálfleik en eftir að Shawn Robert Nicklaw jafnaði metin í seinni hálfleik virtist flest stefna í jafntefli fram að glæsilegu sigurmarki Pablo.

Með sigrinum skýst Stjarnan upp við hlið FH á toppi Pepsi-deildarinnar og er enn taplaus eftir fjórtán leiki.

Í Laugardalnum skaust Fram upp úr fallsæti með frábærum sigri á Val. Ingiberg Ólafur Jónsson skoraði sigurmark Fram um miðbik seinni hálfleiks en sigurinn í kvöld var fyrsti sigur Framara á Laugardalsvelli í eitt ár.

Í Vesturbænum unnu KR-ingar nokkuð náðugan sigur á Keflavík en bæði lið hvíldu nokkra leikmenn sem voru í hættu á að missa af bikarúrslitaleik liðanna á laugardaginn. Almarr Ormarsson skoraði bæði mörk KR í leiknum en með sigrinum saxaði KR forystu toppliðana niður í sex stig.

Í Grafarvoginum nældi Mark Charles Magee í stig fyrir Fjölni í 1-1 jafntefli gegn Breiðablik. Árni Vilhjálmsson kom Breiðablik yfir í upphafi seinni hálfleiks en Mark Charles jafnaði metin um miðbik hálfleiksins með marki í sínum fyrsta leik fyrir félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×