Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Keflavík - Fram 2-4 | Svakalegur seinni hálfleikur hjá Fram

Árni Jóhannsson skrifar
Vísir/Daníel
Fram vann sigur á Keflvíking í dag 2-4 eftir að hafa verið verðskuldað undir í hálfleik en þeir sýndu lítið sem ekkert í fyrri hálfleik. Þeir hafa fengið pistilinn frá þjálfara sínum því þeir mættu tvíefldir til leiks í seinni hálfleik og pökkuðu heimamönnum saman.

Leikurinn fór af stað með látum en bæði lið fengu hálffæri á fyrstu mínútu leiksins en náðu ekki að nýta sér þau. Eftir það tóku heimamenn völdin og voru mikið beittari fram á við og sýnir tölfræði fyrri hálfleiks það. Keflvíkingar náðu níu skotum á móti tveimur gestanna.

Sóknarleikur Fram var mjög ómarkviss og enduðu langar sendingar þeirra oftar en ekki í svæðum þar sem enginn Framari var og var auðvelt fyrir heimamenn að verjast sóknum þeirra.

Á 35. mínútu dró svo til tíðinda þegar Hörður Sveinsson skoraði fyrsta mark leiksins. Bojan Ljubicic fékk boltann út á hægri kanti og gaf hann sendingu inn í markteiginn og hafði vindurinn mikil áhrif á svif boltans. Hörður Sveinsson var þar mættur og stökk hærra en Denis Cardaklija og skallaði boltann inn fyrir marklínuna.

Keflvíkingar héldu yfirburðunum áfram síðustu tíu mínútur hálfleiksins og fóru með verðskuldaða forystu til hálfleiks.

Þó að forysta heimamanna hafi verið verðskulduð í hálfleik þá fuku yfirburðir þeirra úr fyrri hálfleiknum út í veður og vind í þeim seinni. Bæði liðin mættu gjörólík út í seinni hálfleikinn, Fram mikið betra og heimamenn mikið slakari.

Það tók gestina um sex mínútur að jafna leikinn og var þar að verki varamaðurinn Hafsteinn Briem eftir stoðsendingu frá Hauki Baldvinssyni en varnarleikur heimamanna var ekki til fyrirmyndar þar sem Hafsteinn var skilinn aleinn eftir á fjærstönginni efti hornspyrnu gestanna.

Sjö mínútur liðu og þá voru gestirnir komnir með forskotið og öll völd á vellinum. Aftur var varnarleikur heimamanna dapur en Halldór Halldórsson missti þá boltann undir sig og lenti hann hjá Guðmundi Stein Hafsteinssyni sem sendi glæsilega sendingu inn fyrir á Aron Bjarnason sem gerði engin mistök og lagði boltann í hornið fjær framhjá Sandqvist í markinu.

Keflvíkingar virtust missa trúna á verkefninu og nýttu gestirnir sér það til hins ýtrasta. Jóhannes Karl Guðjónsson var næstur á vettvang í markaskoruninni en hann skoraði mark beint úr aukaspyrnu af um 35 metra færi þegar 66 mínútur voru liðnar af leiknum.

Keflvíkingar tóku örlítið við sér eftir þriðja marka Framara en gestirnir gerðu alveg út um leikinn á 85. mínútu þegar Guðmundur Steinn Hafsteinsson kórónaði flottan leik með því að skora mark. Það er vafi hvort hann eigi markið eða hvort það hafi verið sjálfsmark en við leyfum honum að njóta hans. Þangað til annað kemur í ljós.

Hörður Sveinsson klóraði svo í bakkann fyrir heimamenn mínútu seinna en lengra komust Keflvíkingar ekki. Eftir leikinn hafa Framarar 18 stig og Keflvíkingar 19 og því ljóst að lokaspretturinn á botninum verður æsispennandi.

Guðmundur Steinn Hafsteinsson: Líklega mikilvægasti sigur ársins

„Þetta er líklega mikilvægasti sigur ársins hjá okkur“, var svar besta manns vallarins að mati blaðamanns Vísis. Hann var einnig spurður að því hvernig leikurinn leit út frá hans sjónarhorni.

„Við byrjuðum fínt fyrstu fimm mínúturnar en svo slógu þeir okkur í magann og töku völdin á vellinum. Við þurftum að gera eitthvað í því og gerðum það í seinni hálfleik.“

Guðmundur var spurður hvort að leikmenn Fram hafi fengið reiðilestur frá þjálfara sínum í hálfleik og hvort það hafi kveikt í þeim í seinni hálfleik.

„Við fengum að heyra það sem við áttum skilið frá þjálfaranum í hálfleik og líka góð ráð um hvernig við ættum að leysa vandamálin sem við áttum við inn á vellinum. Við leystum það síðan sem lið og eins og sást þá kom allt annað lið út á völlinn í seinni hálfleikinn.“

„Það er svolítið síðan við fórum að hafa trú á því að geta unnið leiki, það kom reyndar smá pása í því í undanförnum leikjum en þannig er fótboltinn bara. Þetta gengur upp og niður og í dag gekk þetta nógu vel í nógu langan tíma til að ná sannfærandi sigri.“

Blaðamaður spurði Guðmund hvort hann ætti fjórða mark Framara. „Já já, þú mátt prenta það“, sagði Guðmundur og brosti út í annað.

Bjarni Guðjónsson: Erum í úrslitaleikjahrinu

„Við vorum mjög daprir í fyrri hálfleik, fyrir utan kannski fyrstu fimm, annars vorum mjög daprir. Gerðum lítið af því sem við unnum með í vikunni fyrir þennan leik en fórum yfir það í hálfleik og hertum á áherslunum. Fórum yfir það hvernig við gætum unnið okkur inn í leikinn og eiga strákarnir hrós skilið fyrir það hvernig þeir vinna sig inn í leikinn og hvernig þeir klára hann á stuttum kafla í seinni háfleik“, sagði kátur Bjarni Guðjónsson eftir sigur sinna manna í Keflavík í kvöld.

Bjarni var spurður að því hvort hann hafi sagt eitthvað sérstakt við sína menn í búningsklefanum í hálfleik.

„Ég skerpti á því að þeir þyrftu að vinna boltann af meiri krafti ásamt því að nýta sér ákveðnar uppspils leiðir sem við lögðum upp með fyrir leik. Það gekk mun betur í seinni hálfleik.“

Bjarni var spurður út í mikilvægi þessa sigurs fyrir framhaldið í deildinni en lítið er eftir og ekkert í hendi varðandi sæti Fram liðsins í deild þeirra bestu.

„Við erum búnir að ræða það í dálítið langan tíma að þetta væri úrslitaleikjahrina sem við værum komnir í og er það það skemmtilega við þetta, allir leikirnir skipta rosalegu máli fyrir okkur. Fjölnir var að spila við FH og við eigum Fjölni næst þannig að þessi leikur gríðarlega mikilvægur. Næsti leikur verður síðan mikilvægari og við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að sá leikur fari jafnvel og þessi.“

Kristján Guðmundsson: Gjörsamlega slökkt á okkur í seinni hálfleik

„Þetta er afleitt alveg“, var það fyrsta sem Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur sagði við blaðamenn í kvöld þegar hann var spurður út í gengi síns liðs en Keflavík hefur ekki unnið leik síðan 22. júní.

„Við náum ekki að skora fleiri mörk en andstæðingurinn en hefðum við nýtt einhver af þessum færum sem við fengum í fyrri hálfleik þá hefði staðan verið önnur og þá hefðum við getað komið betur út í seinni hálfleikinn. En staðan var bara 1-0 og við vorum með leikinn í hendi okkar og héldum að það yrði áframhald á því en það gjörsamlega slökkt á öllu hjá okkur í seinni háfleik.“

Kristján var spurður að því hvort sjálfstraustið væri orðið lítið í hópnum hjá Keflavík. „Nei nei, það er ágætis sjálfstraust. Við erum búnir að setja upp þessa sex seinustu leiki, nú eru tveir búnir af þeim og fjórir eftir og við erum að vinna eftir því sem við gerðum á móti Fjölni og gerðum það í fyrri hálfleik en í seinni háfleik gleymdum við því sem við vorum búnir að setja upp. Við fórum langt frá því og þá lítum við ekki vel út, ef við erum ekki að vinna eftir okkar styrkleikum.“

„Þetta er hugarfarið, ég get ekki séð neitt annað því ekki er skipt um mannskap. Við skerptum á þeim hlutum sem við vorum að gera vel í fyrri hálfleik en yfirburðirnir voru það miklir að við héldum að það yrði áframhald á því í seinni hálfleik en fórum frá því sem við vorum búnir að setja upp fyrir þessa leiki og gleymdum okkur og fengum á okkur fjögur mörk á 45 mínútum sem er ekki í takt við okkar leik og þurfum núna að vinna okkur úr þessu og miðað við fyrri hálfleik þá getum við það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×