Íslenski boltinn

Varamennirnir sitja í flugvélasætum í Laugardalnum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Það fór vel um Gunnar Gylfason, Ragnheiði Elíasdóttir og Sigga Dúllu, starfsmenn KSÍ, í nýju sætunum í dagþ
Það fór vel um Gunnar Gylfason, Ragnheiði Elíasdóttir og Sigga Dúllu, starfsmenn KSÍ, í nýju sætunum í dagþ mynd/instagram
Búið er að skipta út sætunum á varamannabekkjunum á Laugardalsvelli og setja upp myndarleg flugvélasæti frá Icelandair. Það ætti því ekki að fara illa um varamennina í leik Íslands og Tyrklands á þriðjudaginn þegar liðin mætast í fyrsta leik undankeppni EM 2016.

Svipuð sæti eru notuð á knattspyrnuvöllum út um allan heim, en vanalega er notast við bílsæti. Má þar nefna leikvanga eins og Old Trafford og Allianz Arena þar sem Manchester United og Bayern München spila heimaleiki sína.

Kristinn Jóhannsson, vallarstjóri Laugardalsvallar, birti mynd af samstarfsfélögum sínum njóta þægindanna í Dalnum í dag á Instagram-síðu sinni, en íslenska landsliðið er nú við æfingar fyrir leikinn gegn Tyrkjum.

Þó sætin séu eflaust þægilegri en fellistólarnir sem voru áður verður væntanlega ekki slegist um að byrja á bekknum á þriðjudaginn þegar leikurinn gegn Tyrkjum fer fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×