Íslenski boltinn

Álasund vill kaupa Aron Elís

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Elís Þrándarson.
Aron Elís Þrándarson. vísir/GVA
Pepsi-deildarliði Víkings hefur borist kauptilboð í miðjumanninn efnilega Aron Elís Þrándarson frá norska úrvalsdeildarfélaginu Álasundi, samkvæmt öruggum heimildum Vísis.

Aron Elís hefur verið eftirsóttur um nokkurt skeið, ekki síst vegna frammistöðu sinnar í 1. deildinni í fyrra þar sem hann skoraði 14 mörk í 14 leikjum og svo í Pepsi-deildinni í ár þar sem hann bar sóknarleik Víkingsliðsins á herðum sér framan af móti.

Þessi tvítugi sóknarsinnaði miðjumaður hefur ekki farið leynt með áhuga sinn á að spreyta sig í atvinnumennskunni og nú gæti svo farið að hann haldi til Noregs eftir tímabilið, en Víkingar eiga í samningaviðræðum við norska félagið.

Hann mun þó klára tímabilið með Víkingum, en samkvæmt heimildum Vísis ætlar Fossvogsfélagið ekki að sleppa honum áður en Pepsi-deildin klárast. Víkingar eru í harðri baráttu um sæti í Evrópukeppni að ári.

Álasund er sem stendur í 12. sæti norsku úrvalsdeildarinnar, fjórum stigum frá umspilssæti og fimm stigum frá fallsæti. Félagið fagnar 100 ára afmæli sínu í ár, en það hefur verið átta ár samfellt í efstu deild eftir að hafa skoppað upp og niður á milli deilda í nokkur ár þar á undan.

Aron Elís á að baki 64 leiki í deild og bikar fyrir Víking og hefur skorað í þeim 26 mörk og þá hefur hann spilað 19 leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Hann var valinn í hópinn hjá U21 árs landsliðinu á dögunum, en það mætir Armeníu í undankeppni EM 2015 á Fylkisvelli í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×