Körfubolti

Snæfell vann í Borgarnesi | Sögulegt hjá Páli Axel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Vilhelm
Páll Axel Vilbergsson komst í sögubækurnar í kvöld en hann varð fyrsti leikmaðurinn í sögu efstu deildar hér á landi til að skora þúsund þrista á ferlinum.

Metið bætti hann í öðrum leikhluta í leik Skallagríms og Snæfells í Borgarnesi en gestirnir fóru þar með sigur af hólmi eftir spennandi lokamínútur, 88-83.

Páll Axel skorðai sextán stig í leiknum og setti alls fjóra þrista niður í níu tilraunum. Stigahæstur í liði Skallagríms var Tracey Smith með 26 stig en þar á eftir kom Páll Axel.

Skallagrímur leiddi eftir fyrri hálfleik, 48-44, en eftir spennandi lokamínútur reyndust gestirnir sterkari. Austin Bracey skoraði 26 stig fyrir Snæfell og Sigurður Þorvaldsson 20.

Skallagrímur er því enn án stiga á botni deildarinnar eftir þrjár umferðir en Snæfell er með fjögur stig.

Fyrr á þessu ári tók Páll Axel fram úr Guðjóni Skúlasyni fyrir flestar þriggja stiga körfur í efstu deild hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×