Körfubolti

Vantar tvær þriggja stiga körfur í þúsund

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Körfuknattleiksmaðurinn Páll Axel Vilbergsson hefur skorað 998 þriggja stiga körfur í úrvalsdeildinni í körfubolta og er líklegur til að fara yfir eitt þúsund slíkar körfur í næstu leikjum sínum með Skallagrími í Dominos deildinni í körfubolta.

Valtýr Björn Valtýsson hitti þennan ótrúlega körfuboltamann að máli ásamt fjölskyldu hans en Páll Axel veltir þessu ótrúlega meti sínu lítið fyrir sér heldur vinnur bara að því að gera sitt besta fyrir liðið.

„Þetta met er löngu farið en þetta kemur með tímanum. Við erum fyrst og fremst að einbeita okkur að því að ná í sigur. Það skiptir öllu máli. Ég á eftir að spila svo mörg tímabil í viðbót að 1000 körfu múrinn hrynur einn daginn,“ sagði Páll Axel en metið gæti fallið annað kvöld þegar Skallagrímur fær Snæfell í heimsókn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

„Ég myndi segja að það væri aumkunarvert að halda áfram í körfu og stefna að því að bæta einhver stigamet, leikjamet eða körfumet. Ég geri það ekki og mun ekki koma til með að gera það. Ég er í þessu af því að ég hef gaman að þessu og svo þekki ég ekki neitt annað,“ sagði Páll Axel en viðtalið við Pál Axel og fjölskyldu má sjá í meðfylgjandi frétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×