Körfubolti

Fyrsti mótsleikur Damons í Keflavík síðan 7. apríl 2003

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Damon S Johnson.
Damon S Johnson. Vísir/Sigurður Jökull
Keflvíkingar bjóða sannkallaða goðsögn velkomna í kvöld þegar liðið tekur á móti Stjörnunni í TM-höllinni í Keflavík í lokaleik 2. umferðar Dominos-deildar karla en leikurinn er í beinni á Stöð 2 Sport og hefst útsendingin klukkan 19.00.

Damon S Johnson leikur nefnilega í kvöld sinn fyrsta mótsleik í Sláturhúsinu í Keflavík í 4214 daga eða síðan að hann fór fyrir Keflavíkurliðinu í sigri á Grindavík í leik tvö í lokaúrslitum Íslandsmótsins vorið 2003. Leikurinn fór fram í Keflavík 7. apríl 2003 og í næsta leik á eftir varð Damon Íslandsmeistari í þriðja sinn með Keflavík.

Damon S Johnson átti stórbrotinn leik þegar hann lék síðast á Sunnubrautinni en hann var þá með 39 stig og 13 stoðsendingar í 113-102 sigri á Grindavík. Keflavíkurliðið skoraði 44 körfur í leiknum og Damon kom með beinum hætti að 28 þeirra.

Damon S Johnson hefur leikið þrjá leiki með Keflavík á þessu tímabili en þeir hafa allir verið á útivelli eins og bikarleikurinn sem hann spilaði með b-liði Keflavíkur á síðustu leiktíð.

Damon S Johnson var með 18 stig í fyrstu umferðinni þegar Keflavík vann 70-65 sigur á Skallagrími í Borgarnesi en gamli maðurinn (fertugsafmælið er næsta voru) lék í rúmar 35 mínútur í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×