Erlent

14 ára strákur hugðist ganga til liðs við ISIS

Atli Ísleifsson skrifar
Hersveitir Kúrda eiga nú í átökum við liðsmenn ISIS í sýrlensku borginni Kobane og víðar.
Hersveitir Kúrda eiga nú í átökum við liðsmenn ISIS í sýrlensku borginni Kobane og víðar. Vísir/AFP
Lögregluyfirvöld í Austurríki eru nú með fjórtán ára strák í haldi vegna gruns um að hafa ætlað sér að ferðast til Sýrlands og ganga til liðs við vígasveitir ISIS. Saksóknarar segja drenginn hafa leitað upplýsinga á netinu um hvernig skuli búa til sprengjur.

Drengurinn er tyrkneskur ríkisborgari en hefur búið í Austurríki síðastliðin átta ár. Hann var settur í varðhald á þriðjudaginn síðastliðinn. „Hann gekkst við því að hafa ætlað sér að fara til Sýrlands og að hafa leitað að upplýsingum á netinu um sprengjugerð,“ segir Michaela Obenaus, talsmaður saksóknaraembættisins í St. Poelten.

Obenaus segir drenginn hafa lýst yfir stuðningi við baráttu ISIS-liða í Sýrlandi og Írak. „Hann er grunaður um þátttöku í hryðjuverkasamtökum.“

Dómari hefur dæmt drenginn í tveggja vikna gæsluvarðhald en í Austurríki verða menn sakhæfir á fimmtánda aldursári.

Austurrísk yfirvöld rannsaka nú þegar ferðir um 150 einstaklinga sem hafa ferðast frá Austurríki og til Sýrlands og Íraks til að ganga til liðs við sveitir ISIS. Sumir þeirra hafa látist í átökum.

Í frétt Reuters segir að austurrískir fjölmiðlar hafi mikið velt fyrir sér ferðum tveggja táningsstúlkna frá bosnískum fjölskyldum sem grunaðar eru um að hafa farið frá Vínarborg til að ganga að eiga uppreisnarmenn úr röðum ISIS í Sýrlandi eða Írak.

Á heimasíðu Interpol eru myndir af stúlkunum, Samra Kesinovic, 17 ára, og Sabina Selimovic, 15 ára, þar sem lýst er eftir þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×