Körfubolti

Innslag um Tindastólsliðið: Sleppir fleiri, fleiri beygjum á leiðinni heim

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lið Tindastóls í Dominos-deild karla í körfubolta heldur áfram að koma á óvart en liðið er í 2. til 3. sæti deildarinnar með átta stig. Valtýr Björn kynntist Tindastóls-fjölskyldunni í innslagi í kvöldfréttum Stöðvar tvö.

Tindastólsmenn eru nýliðar í deildinni og frábært unglingastaf á Króknum er að skila sér. Eini tapleikur liðsins í Dominos-deildinni í vetur kom í framlengdum leik á móti toppliði KR. Uppistaða Tindastólsliðsins eru heimamenn því einu leikmennirnir sem ekki eru uppaldir á Króknum eru Darrel Keith Lewis, Darrell Flake og Myron Dempsey.

Valtýr Björn skellti sér á leik ÍR og Tindastóls á dögunum og fékk meðal annars að fara inn í klefa í hálfleik þegar spænski þjálfarinn Israel Martin fór yfir málin með sínum mönnum.

Í liði Tindastóls eru margir ungir og upprennandi leikmenn á aldrinum 18 til 20 ára en næsta aldursskeið er síðan 30 til 33 ára. Þessi blanda gengur vel.

„Þeir eru að koma upp þessir ungu pungar hjá okkur en við erum með góða blöndu af ungum og gömlum," sagði fyrirliðinn Helgi Rafn Viggósson.

Valtýr ræddir við ungu strákana en hann talaði líka við aðstoðarþjálfarann sem er líka rútubílstjóri liðsins. „Heimleiðin er alltaf styttri. Strákarnir sofa, sofa og sofa og þeir átta sig ekki á því að ég sleppi fleiri fleiri beygjum á leiðinni heim," sagði Kári Marísson í léttum tón.

Hér fyrir ofan má sjá þetta skemmtilega innslag um Tindastólsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×