Körfubolti

ÍR safnar liði í Domino's deildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hampton (í miðjunni) útskrifaðist úr Georgia Tech 2010.
Hampton (í miðjunni) útskrifaðist úr Georgia Tech 2010. Mynd/Daily Press
Lið ÍR í Domino's deild karla í körfubolta heldur áfram að safna liði, en Breiðhyltingar eru búnir að semja við Bandaríkjamanninn Trey Hampton. Þetta kemur fram á Karfan.is.

Hampton þessi er 27 ára og var síðast á mála hjá SC Kryvbas Kryvyi Rih í Úkraínu. Hann hefur einnig m.a. spilað með liðum í Kosovo, Finnlandi og Rúmeníu, auk þess sem hann var á mála hjá Tindastóli um skamma hríð árið 2011.

Hampton kemur í stað Chris Gradnigo sem var látinn fara, en hann stóð ekki undir væntingum forráðamanna ÍR.

Hampton leikur væntanlega sinn fyrsta leik fyrir ÍR á fimmtudaginn þegar Breiðhyltingar sækja Keflvíkinga heim. ÍR er í 10. sæti Domino's deildarinnar með tvö stig eftir fimm umferðir.

Karfan.is greindi einnig frá því á laugardaginn að ÍR hafi samið við Hamid Dicko út tímabilið. Dicko, sem er þrítugur, leikur með Breiðholtsliðinu sem Íslendingur, en hann öðlaðist rétt til þess í byrjun október.

Dicko kom fyrst til Íslands í október 2011, fyrir þremur árum, en í reglugerð KKÍ frá 2013 segir:

„Erlendur ríkisborgari sem hefur samkvæmt Þjóðskrá haft lögheimili á Íslandi samfellt í 3 ár telst ekki sem erlendur leikmaður í reglugerð þessari og skal hann framvísa nauðsynlegum gögnum til skrifstofu KKÍ. KKÍ staðfestir að hann teljist með íslenskum ríkisborgurum í þessari reglugerð. Sá sem hefur leiktíðina sem erlendur leikmaður telst sem slíkur út leiktíðina.“

Þess má geta að Dicko er unnusti Maríu Ben Erlingsdóttur, leikmanns Grindavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×