Handbolti

Annar sigur Magdeburg í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Geir og strákarnir hans eru í 5. sæti Bundesligunnar.
Geir og strákarnir hans eru í 5. sæti Bundesligunnar. Vísir/getty
Geir Sveinsson og lærisveinar hans í Magdeburg unnu annan leik sinn í röð þegar liðið lagði Bietigheim að velli, 23-30, í þýsku Bundesligunni í handbolta í kvöld.

Heimamenn í Bietigheim höfðu frumkvæðið framan af leik og náðu mest þriggja marka forystu í fyrri hálfleik.

Magdeburg átti hins vegar góðan endasprett og breytti stöðunni úr 11-8 í 13-15 á lokakafla fyrri hálfleiks.

Leikurinn var áfram jafn framan af seinni hálfleik, en í stöðunni 20-20 settu gestirnir í fluggírinn, skoruðu níu mörk í röð og unnu að lokum sjö marka sigur, 23-30.

Austurríski hornamaðurinn Robert Weber var einu sinni sem oftar markahæstur í liði Magdeburg með níu mörk, en Yves Grafenhorst kom næstur með sex mörk.

Magdeburg er eftir sigurinn í 5. sæti deildarinnar með 19. stig. Bietigheim er hins vegar í botnsætinu með fjögur stig.

Tveir aðrir leikir fóru fram í Bundesligunni í dag. Balingen vann fimm marka sigur á Lemgo, 33-28, og TuS N-Lübbecke hafði betur gegn Göppingen, 29-27.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×