Handbolti

Stórskytta Framliðsins spilar ekki vegna bólgna í heila

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnheiður Júlíusdóttir.
Ragnheiður Júlíusdóttir. Vísir/Daníel
Ragnheiður Júlíusdóttir, hin unga stórskytta toppliðs Framara í Olís-deild kvenna, hefur ekkert spilað frá 6. nóvember vegna veikinda. Hún segist vera á batavegi en Framkonur hafa haldið áfram á sigurbraut þrátt fyrir missinn.

„Ég byrjaði bara eftir Valsleikinn að missa stjórn á fínum hreyfingum í vinstri hendi og seinna meir þá missti ég bragðskynið og jafnvægið. Ég fór strax í rannsóknir og í myndatöku og svoleiðis og í ljós kom að það voru bólgur inn í heilanum, í litla heila. Þetta var bara líklegast vírus og ég fór strax í stera meðferð. Það lagaði einkennin og einkennin eru öll farin nema að það er ennþá smá stjórnleysi í hendinni,“ sagði Ragnheiður í viðtali við Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson á RÚV.

„Mér líður vel núna, ég get labbað og ég get borðað. Ég er því á batavegi," segir Ragnheiður Júlíusdóttir sem hefur skorað 51 mörk í 8 leikjum með Framliðinu í Olís-deildinni í vetur sem gera 6,4 mörk að meðaltali í leik.

„Læknirinn sagði mér að ég mætti byrja að æfa þegar ég treysti mér til þess. Ég treysti mér örugglega til þess í vikunni. Ég verð samt að byrja rosalega hægt og passa að fara hægt af stað. Ég verð að hugsa vel um sjálfa mig næstu mánuðina," sagði Ragnheiður en hvernig er að horfa á Framliðið úr stúkunni.

„Það er ógeðslega leiðinlegt og bara það leiðinlegasta sem ég geri. Þær eru samt að standa sig vel þótt að leikurinn á móti Gróttu hafi ekki verið nógu góður. Þær voru frábærar í dag," sagði Ragnheiður Júlíusdóttir en viðtalið var tekið eftir sigur Fram á Fylki í gær sem var tíundi deildarsigur liðsins í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×