Fylgi stjórnarflokkanna minnkar og er nú samanlagt undir 40 prósentum, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með tæplega 24 prósenta fylgi en Framsókn með 15 prósent, minna fylgi en bæði Samfylkingin og Björt framtíð. Þeir flokkar bæta báðir við sig fylgi, en Samfylkingin mælist með tæp 17 prósent og Björt Framtíð með tæp 16.
Athygli vekur að ef einungis er miðað við svör undanfarinnar viku, eða síðan utanríkisráðherra lagði fram tillögu um að draga til baka aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu, mælast stjórnarflokkarnir með enn minna fylgi. Þá mælist Sjálfstæðisflokkur með 19 prósenta fylgi og Framsókn 13 prósent.
Í kvöldfréttum RÚV í gær gat Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ekki svarað því hvort til greina kæmi að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um tillöguna.
„Ég ætla ekki að svara þessu fyrr en við höfum farið yfir málin, stjórnarflokkarnir,“ sagði Bjarni.
Innlent