Flækjusaga: Labbakútar þeir sem hræddir verða Illugi Jökulsson skrifar 1. mars 2014 12:00 Halldór Laxness Ég man eftir sjálfum mér að bisa við að lesa Njálu, ég trúi því statt og stöðugt að ég hafi verið sjö ára. Þetta var stóra og þunga útgáfan sem Halldór Laxness sá um og ríkulega myndskreytt, heilmikill og fallegur gripur og manni duldist ekki að þetta var merkileg bók. Og barnið ég pældi í gegnum þetta allt saman, skildi auðvitað ekki nærri allt en náði söguþræðinum að mestu leyti og ýmsum af hápunktunum. Og kannski er ég síðasti maður sem komst beinlínis við yfir kaflanum þegar Gunnar á Hlíðarenda var drepinn; eru ekki seinni tíma kynslóðir löngu hættar að hrífast eitthvað af bóndanum í Fljótshlíðinni og þeim hetjuskap hans að bregða sér hvorki við sár né bana? Það vona ég sannarlega, sá hetjuskapur hefur áreiðanlega gert nægan óskunda hjá hrifnæmum lesendum fyrri tíma, þótt ekki séu menn að fá tár í augun yfir honum ennþá.Hættulegar sjófarir En nú víkur sögunni til ársins 1908. Þá drukknaði ungur maður, Kristján Snæbjörnsson, á Barðaströnd. Hann hafði verið að kvöldlagi að losa bát af sandrifi nálægt bænum Haga þegar bátnum hvolfdi og hann tók að berast út aftur. Kristján reyndi í lengstu lög að halda bátnum við ströndina en þegar tókst ekki náði hann að skreiðast hálfur upp á kjölinn og hélt sér þar föstum. Urðu hinir mennirnir tveir að horfa á eftir Kristjáni reka til hafs hangandi í bátnum. Morguninn eftir var farið að leita að bátnum á svæðinu og fannst hann fljótlega marandi í hálfu kafi. Skammt frá fannst lík Kristjáns. Nú. Þetta var í sjálfu sér sorglega algengur atburður á Íslandi á þeim árum. Landsmenn stunduðu sjó á sínum litlu og hættulegu bátum og sundkunnátta var aldeilis fáránlega léleg. Ef eitthvað bjátaði á drukknuðu þrautþjálfaðir sjómenn nánast uppi í landsteinum af því þeir kunnu ekki að synda. Það er til dæmis lítill vafi á því að Kristján Snæbjörnsson hefði auðveldlega getað svamlað í land af bátsskelinni meðan hún var að hrekjast um skammt undan ströndinni. En í staðinn hefur hann þurft að hanga í bátnum alla nóttina, uns hann örmagnaðist, missti takið og drukknaði. Og eitthvað svipað þessu var sífellt að gerast í sjónum kringum landið. Og þó. Þegar að var gáð var drukknun Kristjáns Snæbjörnssonar jafnvel enn óskiljanlegri en flestir atburðir aðrir af svipuðu tagi. Báturinn og lík Kristjáns fundust nefnilega í fjöru mjög skammt frá bæjum. Svo skammt að ef Kristján hefði hrópað á hjálp var alveg vafalaust að heyrst hefði til hans og fólkið á bæjunum hefði léttilega getað skotið út báti, róið út að Kristjáni þar sem hann hékk á kilinum, og bjargað honum í land. En fólkið á bæjunum varð einskis vart um nóttina, ekki múkk heyrðist utan af sjó og ljóst þótti af verksummerkjum að Kristján hefði ekki drukknað fyrr en í morgunsárið – þegar bátinn rak beinlínis upp í flæðarmálið undan bæjunum. Þá hefur hann loksins misst tak sitt fáa metra frá landi og drukknað. Svona eiga sjómenn að deyja En hvers vegna hrópaði hann ekki á hjálp? Hvers vegna sótti hann ekki auðfengna björgun sem við blasti? Jú, það var vegna þess að Kristján var sonur föður síns, Snæbjörns Kristjánssonar, bónda, sjósóknara og hreppstjóra í Hergilsey í Breiðafirði, og í afar merkilegri sjálfsævisögu sem Snæbjörn skrifaði kemur fram á næstum átakanlegan hátt lífsviðhorf hins harðskeytta Íslendings sem alinn hefur verið upp í trú á Íslendingasögurnar og hetjur þeirra, eins og Gunnar á Hlíðarenda. Það var fóstra Snæbjörns sem stóð fyrir því uppeldi og kenndi honum hetjusögurnar. Æ síðan reyndi Snæbjörn alltaf þegar eitthvað bjátaði á að hugsa fyrst: hvað myndi Gunnar á Hlíðarenda gera núna? Eða Grettir? Eða Skarphéðinn? Eða jafnvel Þorgeir Hávarsson! Fóstran „hafði bannað mér [að verða hræddur] og lýsti þá örgustu labbakúta sem hræddir yrðu. „Og aldrei verða þeir nýtir menn,“ sagði sú gamla.“ Þennan lærdóm og sögurnar um hetjurnar sem brugðu sér hvorki við sár né bana, hvorttveggja drakk Snæbjörn svo rækilega í sig að það hafði nærri kostað hann lífið á áttunda ári. Hann hafði ætlað út í bát án þess að nokkur vissi en datt útbyrðis og náði með naumindum taki á borðstokknum. Þar hékk hann lengi. „Mér datt í hug að kalla á hjálp. En mundi [fóstra mín] ekki slá mér því í nasir síðar, sem allt gerði til að herða mig sem mest?“ Snæbjörn náði um síðir að svamla í land án þess að þurfa að upplifa þá „niðurlægingu“ að kalla á hjálp. Hann var þá sem sagt á sama aldri og ég var, þegar ég var að basla í gegnum Njálu og hryggjast yfir örlögum Gunnars á Hlíðarenda. Ansi er ég nú samt smeykur um að við sömu aðstæður hefði ég verið snöggur að kalla á hjálp og ekki skammast mín að ráði fyrir það. En löngu seinna hafði Snæbjörn sem sagt eignast soninn Kristján, þann sem drukknaði nánast í fjöruborðinu á Barðaströnd. Og í sjálfsævisögunni segir Snæbjörn um andlát sonarins: „Mér var það huggun við þetta sorglega atvik, að aldrei um kvöldið heyrðist óp til Kristjáns í sjávarháskanum; hefði þó hlotið að heyrast, svo nálægt bæjum, ef hann hefði gefið nokkurt hljóð frá sér. – Svona eiga sjómenn að deyja; það er fagurt og minnir mig á fornsagnahetjurnar, sem horfðu brosandi í móti dauðanum.“ SnæbjörnSem sé: Snæbirni þótti skárra að hafa misst son sinn en ef hann hefði bjargast með því að hrópa á hjálp. Þessi lífsafstaða er náttúrlega svo súrrandi kexrugluð, að það er erfitt að bera virðingu fyrir henni – en þó einnig erfitt að áfellast fólk sem kannski í mörg hundruð ár hafði verið gegnsýrt frásögnum um kappana miklu sem ekkert hræddust og brugðu sér aldrei. Snæbirni var hreint ekki sama um son sinn, það kemur skýrt fram, en orðspor hetjunnar var honum þó enn meira virði. Kona hans hét Guðrún Hafliðadóttir úr Svefneyjum og virðist hafa verið svipaðs sinnis og Snæbjörn, að minnsta kosti birtist hún þannig í túlkun hans í bókinni. Þar segir á einum stað frá því þegar þau hjón misstu tveggja ára dóttur. „Það var okkur … harmur mikill. Kona mín var stillingin sjálf, en þó átti hún erfitt með að dylja sorg sína við barnamissinn. En það var okkar mark og mið, að dylja og láta engan sjá merki til sorgar.“ Og það virðist reyndar hafa verið helsti kostur Guðrúnar í augum Snæbjörns, hve vel hún gat dulið sorgir sínar og tilfinningar. „Oft dáðist ég í huga mínum að stillingu og háttprýði konu minnar. Hún gat svo vel dulið söknuð og sárar tilfinningar að mig undraði. Hún breyttist í engu, hvað sem fyrir kom.“ Það er dæmigert fyrir ævisöguna, eins og segir á einum stað, þar sem hvergi er fjölyrt um tilfinningamál þótt augljóslega kraumi oft undir niðri, að þótt kaflafyrirsagnir séu oft æsilegar (Í hættu staddur, Strand og manntjón, Ljótur leikur stráka, Fundinn hvalur, Líkin sótt o.s.frv.) þá er frásögnina af hjónabandi þeirra Guðrúnar að finna í kafla sem ber fyrirsögnina „Ýmislegt“. Og fer þó ekki milli mála að kært hefur verið milli þeirra, svo mjög reyndar að þegar Guðrún dó lagði Snæbjörn sig sérstaklega fram um að láta engan sjá á sér söknuð. En orti þó eina vísu sem endaði svo: „[Nú] er úti sorta að sjá, svona er inni líka.“ Þetta var allt og sumt eftir 46 ára hjónaband, fimm börn og lifðu aðeins þrjú foreldra sína.Hin eilífa fyrirmynd? Sú útgáfa af Njálu sem ég var að basla við að lesa þarna sjö ára gamall, hún varð mjög umdeild af því mörgum fannst Halldór Laxness fremja ægilega goðgá með því að gefa hana og fleiri sögur út með nútímastafsetningu og gefa hvað eftir annað til kynna að þetta væru skáldsögur en ekki sagnfræðileg verk um alvöru fólk sem ætti að vera öllum landsmönnum hin eilífa fyrirmynd. Var á það bent og líklega réttilega að nú yrðu sögurnar aldrei teknar jafn hátíðlega af Íslendingum og áður. En miðað við hvernig þessar sögur léku Snæbjörn í Hergilsey, fóstru hans, eiginkonu og vesalinginn Kristján þar sem hann hékk á bátnum heila nótt án þess að kalla á hjálp, þá hefur hann líklega bjargað heilmörgum mannslífum! Flækjusaga Menning Mest lesið Andrew Garfield á Íslandi Lífið Dagbók móður: „Munum við fara fjárhagslega á hausinn?“ Áskorun Katrín Tanja trúlofuð Lífið Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Lífið Gefa bretti af flugeldum að verðmæti 300.000 króna Lífið samstarf Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Lífið Brúðkaup ársins 2024 Lífið Partyland í Holtagörðum hefur allt fyrir gamlárspartýið Lífið samstarf Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lífið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Fleiri fréttir Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Í beinni: Dagur íslenskrar tónlistar Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Sjá meira
Ég man eftir sjálfum mér að bisa við að lesa Njálu, ég trúi því statt og stöðugt að ég hafi verið sjö ára. Þetta var stóra og þunga útgáfan sem Halldór Laxness sá um og ríkulega myndskreytt, heilmikill og fallegur gripur og manni duldist ekki að þetta var merkileg bók. Og barnið ég pældi í gegnum þetta allt saman, skildi auðvitað ekki nærri allt en náði söguþræðinum að mestu leyti og ýmsum af hápunktunum. Og kannski er ég síðasti maður sem komst beinlínis við yfir kaflanum þegar Gunnar á Hlíðarenda var drepinn; eru ekki seinni tíma kynslóðir löngu hættar að hrífast eitthvað af bóndanum í Fljótshlíðinni og þeim hetjuskap hans að bregða sér hvorki við sár né bana? Það vona ég sannarlega, sá hetjuskapur hefur áreiðanlega gert nægan óskunda hjá hrifnæmum lesendum fyrri tíma, þótt ekki séu menn að fá tár í augun yfir honum ennþá.Hættulegar sjófarir En nú víkur sögunni til ársins 1908. Þá drukknaði ungur maður, Kristján Snæbjörnsson, á Barðaströnd. Hann hafði verið að kvöldlagi að losa bát af sandrifi nálægt bænum Haga þegar bátnum hvolfdi og hann tók að berast út aftur. Kristján reyndi í lengstu lög að halda bátnum við ströndina en þegar tókst ekki náði hann að skreiðast hálfur upp á kjölinn og hélt sér þar föstum. Urðu hinir mennirnir tveir að horfa á eftir Kristjáni reka til hafs hangandi í bátnum. Morguninn eftir var farið að leita að bátnum á svæðinu og fannst hann fljótlega marandi í hálfu kafi. Skammt frá fannst lík Kristjáns. Nú. Þetta var í sjálfu sér sorglega algengur atburður á Íslandi á þeim árum. Landsmenn stunduðu sjó á sínum litlu og hættulegu bátum og sundkunnátta var aldeilis fáránlega léleg. Ef eitthvað bjátaði á drukknuðu þrautþjálfaðir sjómenn nánast uppi í landsteinum af því þeir kunnu ekki að synda. Það er til dæmis lítill vafi á því að Kristján Snæbjörnsson hefði auðveldlega getað svamlað í land af bátsskelinni meðan hún var að hrekjast um skammt undan ströndinni. En í staðinn hefur hann þurft að hanga í bátnum alla nóttina, uns hann örmagnaðist, missti takið og drukknaði. Og eitthvað svipað þessu var sífellt að gerast í sjónum kringum landið. Og þó. Þegar að var gáð var drukknun Kristjáns Snæbjörnssonar jafnvel enn óskiljanlegri en flestir atburðir aðrir af svipuðu tagi. Báturinn og lík Kristjáns fundust nefnilega í fjöru mjög skammt frá bæjum. Svo skammt að ef Kristján hefði hrópað á hjálp var alveg vafalaust að heyrst hefði til hans og fólkið á bæjunum hefði léttilega getað skotið út báti, róið út að Kristjáni þar sem hann hékk á kilinum, og bjargað honum í land. En fólkið á bæjunum varð einskis vart um nóttina, ekki múkk heyrðist utan af sjó og ljóst þótti af verksummerkjum að Kristján hefði ekki drukknað fyrr en í morgunsárið – þegar bátinn rak beinlínis upp í flæðarmálið undan bæjunum. Þá hefur hann loksins misst tak sitt fáa metra frá landi og drukknað. Svona eiga sjómenn að deyja En hvers vegna hrópaði hann ekki á hjálp? Hvers vegna sótti hann ekki auðfengna björgun sem við blasti? Jú, það var vegna þess að Kristján var sonur föður síns, Snæbjörns Kristjánssonar, bónda, sjósóknara og hreppstjóra í Hergilsey í Breiðafirði, og í afar merkilegri sjálfsævisögu sem Snæbjörn skrifaði kemur fram á næstum átakanlegan hátt lífsviðhorf hins harðskeytta Íslendings sem alinn hefur verið upp í trú á Íslendingasögurnar og hetjur þeirra, eins og Gunnar á Hlíðarenda. Það var fóstra Snæbjörns sem stóð fyrir því uppeldi og kenndi honum hetjusögurnar. Æ síðan reyndi Snæbjörn alltaf þegar eitthvað bjátaði á að hugsa fyrst: hvað myndi Gunnar á Hlíðarenda gera núna? Eða Grettir? Eða Skarphéðinn? Eða jafnvel Þorgeir Hávarsson! Fóstran „hafði bannað mér [að verða hræddur] og lýsti þá örgustu labbakúta sem hræddir yrðu. „Og aldrei verða þeir nýtir menn,“ sagði sú gamla.“ Þennan lærdóm og sögurnar um hetjurnar sem brugðu sér hvorki við sár né bana, hvorttveggja drakk Snæbjörn svo rækilega í sig að það hafði nærri kostað hann lífið á áttunda ári. Hann hafði ætlað út í bát án þess að nokkur vissi en datt útbyrðis og náði með naumindum taki á borðstokknum. Þar hékk hann lengi. „Mér datt í hug að kalla á hjálp. En mundi [fóstra mín] ekki slá mér því í nasir síðar, sem allt gerði til að herða mig sem mest?“ Snæbjörn náði um síðir að svamla í land án þess að þurfa að upplifa þá „niðurlægingu“ að kalla á hjálp. Hann var þá sem sagt á sama aldri og ég var, þegar ég var að basla í gegnum Njálu og hryggjast yfir örlögum Gunnars á Hlíðarenda. Ansi er ég nú samt smeykur um að við sömu aðstæður hefði ég verið snöggur að kalla á hjálp og ekki skammast mín að ráði fyrir það. En löngu seinna hafði Snæbjörn sem sagt eignast soninn Kristján, þann sem drukknaði nánast í fjöruborðinu á Barðaströnd. Og í sjálfsævisögunni segir Snæbjörn um andlát sonarins: „Mér var það huggun við þetta sorglega atvik, að aldrei um kvöldið heyrðist óp til Kristjáns í sjávarháskanum; hefði þó hlotið að heyrast, svo nálægt bæjum, ef hann hefði gefið nokkurt hljóð frá sér. – Svona eiga sjómenn að deyja; það er fagurt og minnir mig á fornsagnahetjurnar, sem horfðu brosandi í móti dauðanum.“ SnæbjörnSem sé: Snæbirni þótti skárra að hafa misst son sinn en ef hann hefði bjargast með því að hrópa á hjálp. Þessi lífsafstaða er náttúrlega svo súrrandi kexrugluð, að það er erfitt að bera virðingu fyrir henni – en þó einnig erfitt að áfellast fólk sem kannski í mörg hundruð ár hafði verið gegnsýrt frásögnum um kappana miklu sem ekkert hræddust og brugðu sér aldrei. Snæbirni var hreint ekki sama um son sinn, það kemur skýrt fram, en orðspor hetjunnar var honum þó enn meira virði. Kona hans hét Guðrún Hafliðadóttir úr Svefneyjum og virðist hafa verið svipaðs sinnis og Snæbjörn, að minnsta kosti birtist hún þannig í túlkun hans í bókinni. Þar segir á einum stað frá því þegar þau hjón misstu tveggja ára dóttur. „Það var okkur … harmur mikill. Kona mín var stillingin sjálf, en þó átti hún erfitt með að dylja sorg sína við barnamissinn. En það var okkar mark og mið, að dylja og láta engan sjá merki til sorgar.“ Og það virðist reyndar hafa verið helsti kostur Guðrúnar í augum Snæbjörns, hve vel hún gat dulið sorgir sínar og tilfinningar. „Oft dáðist ég í huga mínum að stillingu og háttprýði konu minnar. Hún gat svo vel dulið söknuð og sárar tilfinningar að mig undraði. Hún breyttist í engu, hvað sem fyrir kom.“ Það er dæmigert fyrir ævisöguna, eins og segir á einum stað, þar sem hvergi er fjölyrt um tilfinningamál þótt augljóslega kraumi oft undir niðri, að þótt kaflafyrirsagnir séu oft æsilegar (Í hættu staddur, Strand og manntjón, Ljótur leikur stráka, Fundinn hvalur, Líkin sótt o.s.frv.) þá er frásögnina af hjónabandi þeirra Guðrúnar að finna í kafla sem ber fyrirsögnina „Ýmislegt“. Og fer þó ekki milli mála að kært hefur verið milli þeirra, svo mjög reyndar að þegar Guðrún dó lagði Snæbjörn sig sérstaklega fram um að láta engan sjá á sér söknuð. En orti þó eina vísu sem endaði svo: „[Nú] er úti sorta að sjá, svona er inni líka.“ Þetta var allt og sumt eftir 46 ára hjónaband, fimm börn og lifðu aðeins þrjú foreldra sína.Hin eilífa fyrirmynd? Sú útgáfa af Njálu sem ég var að basla við að lesa þarna sjö ára gamall, hún varð mjög umdeild af því mörgum fannst Halldór Laxness fremja ægilega goðgá með því að gefa hana og fleiri sögur út með nútímastafsetningu og gefa hvað eftir annað til kynna að þetta væru skáldsögur en ekki sagnfræðileg verk um alvöru fólk sem ætti að vera öllum landsmönnum hin eilífa fyrirmynd. Var á það bent og líklega réttilega að nú yrðu sögurnar aldrei teknar jafn hátíðlega af Íslendingum og áður. En miðað við hvernig þessar sögur léku Snæbjörn í Hergilsey, fóstru hans, eiginkonu og vesalinginn Kristján þar sem hann hékk á bátnum heila nótt án þess að kalla á hjálp, þá hefur hann líklega bjargað heilmörgum mannslífum!
Flækjusaga Menning Mest lesið Andrew Garfield á Íslandi Lífið Dagbók móður: „Munum við fara fjárhagslega á hausinn?“ Áskorun Katrín Tanja trúlofuð Lífið Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Lífið Gefa bretti af flugeldum að verðmæti 300.000 króna Lífið samstarf Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Lífið Brúðkaup ársins 2024 Lífið Partyland í Holtagörðum hefur allt fyrir gamlárspartýið Lífið samstarf Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lífið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Fleiri fréttir Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Í beinni: Dagur íslenskrar tónlistar Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Sjá meira