Fótbolti

Dóra María: Nú vil ég halda áfram endalaust

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dóra María Lárusdóttir gengur fyrir íslenska liðinu fyrir leikinn á móti Svíum í gær.
Dóra María Lárusdóttir gengur fyrir íslenska liðinu fyrir leikinn á móti Svíum í gær. Mynd/KSÍ/Hilmar Þór Guðmundsson
„Við getum ekki verið mikið léttari á því en eftir svona sigur,“ sagði Dóra María Lárusdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, kampakát við Fréttablaðið í gær eftir að stelpurnar okkar lögðu Svíþjóð, 2-1, í leiknum um bronsverðlaunin á Algarve-mótinu.

Sara Björk Gunnarsdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir skoruðu mörk Íslands á þriggja mínútna kafla í fyrri hálfleik en þetta er í annað skiptið sem Ísland vinnur til verðlauna á mótinu (silfur 2011).

„Við settum á þær grimma hápressu sem kom þeim á óvart. Þér héngu meira á boltanum en við en við náðum að skora eftir góða pressu og annað mark fylgdi svo í kjölfarið. Þær sköpuðu sér eiginlega ekkert fyrir utan þetta mark. Mér fannst sigurinn aldrei í hættu,“ sagði Dóra María sem bar fyrirliðabandið í leiknum í sínum 100. A-landsleik.

Dóra María viðurkennir fúslega að stelpunum leiddist nákvæmlega ekki neitt að leggja Svíþjóð að velli eftir flenginguna sem þær fengu í 8 liða úrslitum EM í fyrra þar sem Svíarnir völtuðu yfir okkar stelpur, 4-0. Í heildina vann Svíþjóð lið Íslands þrisvar sinnum á síðasta ári.

„Það var yndislegt að þagga aðeins niður í þeim. Nógu kokhraustar eru þær sænsku eftir að hafa flengt okkur þrisvar á síðasta ári. Þær urðu svo pirraðar þegar við skoruðum fyrsta markið að þær komust aldrei yfir það. Þetta var afskaplega ljúfur sigur,“ sagði Dóra María alsæl.

Leikmenn nýtt tækifærin

Ísland byrjaði Algarve-mótið ekki vel og tapaði fyrir Evrópumeisturum Þýskalands, 5-0. Stelpurnar voru fljótar að hrista það af sér og unnu þrjá leiki í röð og hirtu bronsið.

„Eins furðulegt og er að segja frá því gekk margt upp sem við lögðum upp með taktískt gegn Þýskalandi. Það er náttúrlega fullt af nýjungum sem við erum að læra inn á með fleiri leikjum og meiri tíma sem við eyðum saman,“ sagði Dóra María.

Hún er ánægð með dvölina á Algarve og hvernig nýir og yngri leikmenn liðsins hafa komið sterkir inn. Þjálfarinn lofaði þeim spiltíma og ábyrgðinni fögnuðu þeir.

„Það er mjög mikilvægt að stækka hópinn og gefa fleirum tækifæri. Leikmenn hafa líka nýtt þetta tækifæri mjög vel. Við höfum æft tvisvar á dag fyrir utan að spila leikina og farið mikið í taktík. Svo er þessi íslenska geðveiki og liðsheildin alltaf til staðar,“ sagði hún.

Aðspurð hvort þessar ungu stelpur í dag séu betri eða öðruvísi leikmenn en Dóra og fleiri á hennar aldri þegar þær komu inn í liðið sagði hún:

„Það er erfitt að leggja mat á það hvort þær séu betri en margar þarna eru rosalega öflugar. Þær koma sterkar inn og eru alveg ófeimnar. Þessar stelpur í dag hafa að meiru að stefna. Landsliðið er núna búið að fara tvisvar á stórmót og fleiri stelpur fara í atvinnumennsku núna og góða háskóla. Þetta var ekki alveg svona þegar ég var að byrja.“

Stolt af metinu

Dóra María er sú yngsta í sögunni sem nær að spila 100 A-landsleiki.

„Ég hef ekkert verið að spá í þessu en svo þegar maður er búinn að ná þessu er maður stoltur og þakklátur. Það hefur hvarflað að mér stundum hvort það sé ekki tími til að leggja knattspyrnuferilinn til hliðar en guð minn almáttugur hvað ég er fegin núna að hafa ekki gert það. Nú vil ég halda áfram endalaust á meðan líkaminn leyfir,“ sagði hún en Dóra er þó meðvituð um að metið gæti fallið á næstu árum.

Sara Björk Gunnarsdóttir spilaði t.a.m. sinn 69. landsleik í gær, 24 ára gömul. „Ég nýt þessa Íslandsmets á meðan ég á það.“

Íslenska liðið fór ekki vel af stað í haust í undankeppni HM og tapaði illa fyrir Sviss á heimavelli. Smá bölsýni var komin í liðið, viðurkennir Dóra, en hún er á bak og burt.

„Ég viðurkenni það alveg að við vorum örlítið svartsýnar. Það voru breytingar á hópnum og þjálfarinn fékk auðvitað skamman tíma. Okkur vantar marga sterka leikmenn líka og svona. En þessir leikir á Algarve hafa kennt okkur það að við getum alveg staðið okkur gegn þeim bestu sem er mikilvægt upp á sjálfstraustið,“ sagði Dóra María Lárusdóttir, 100 leikja kona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×