Öldungurinn og endemis unglingarnir Halla Þórlaug Óskarsdóttir skrifar 26. mars 2014 07:00 Ég er smám saman að átta mig á því að ég eldist. Uppgötvunin er hægfara, líklega talsvert hægari en öldrun mín. Að mínu mati er það þó merki um þroska en ekki elli að ég hafi óskað eftir Birkenstock-inniskóm, tekatli og heilsukodda í afmælisgjöf. Enda hefur lífið snarbatnað. Bakverkurinn á brott með Birkenstock, hálsrígurinn horfinn með heilsukoddanum og te … Te er gott. Félagsvistin í félagsmiðstöð eldri borgara rennir enn síður stoðum undir öldrunina, því sjaldan hefur mér liðið jafnungri og þar. Það er hreint mótefni gegn aldurskomplexum að mæta á svoleiðis samkomu. Maður bókstaflega valhoppar út, í svakalega góðu formi. Það sem hins vegar hefur staðfest grun minn um að ég eldist eins og aðrir er einmitt hitt: Unglingarnir. Skyndilega eru komnir nýir unglingar. Og ég man bara ekkert hvað það er. Um daginn var ég á heimleið á myrku kvöldi. Ég er yfirleitt í svona kápujakka, svörtum með mjög stórri hettu og þegar það er rigning eða kalt, eins og þetta kvöld set ég hettuna yfir allt höfuðið, en hún er miklu stærri en höfuðið á mér svo hún nær langt fram. Dálítið svipað og hjá manninum með ljáinn. Nema hvað, ég geng þarna í hægðum mínum (ljálaus og grandalaus) og fyrir framan mig er unglingsstelpa á sömu leið. Hún lítur aftur og þegar hún sér mig hleypur hún af stað eins og fætur toga. Mér finnst þetta dálítið skondið. Fyrst. Brátt hægir hún á ferðinni, en lítur svo aftur við og rýkur af stað. Þegar þetta hefur gerst nokkrum sinnum er ég orðin mjög pirruð og farin að greikka sporið á eftir grey stelpunni. „Hvað heldur hún eiginlega að ég ætli að gera henni?“ hugsa ég mjög sár og dálítið reið. Ég lái ekki stúlkunni að hafa hlaupið. Þarna fann ég ekkert sérstaklega fyrir aldrinum og hagaði mér sannarlega ekki samkvæmt honum. Komplexarnir dundu hins vegar á mér á mánudaginn þegar ég mætti unglingspilt sem brosti til mín og hneigði höfuðið dálítið. Hann hefði líklega tekið ofan, en hann var hattlaus. Haltrandi og hokin staulaðist ég áfram leiðar minnar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Halla Þórlaug Óskarsdóttir Mest lesið Af hverju eru kennarar að fara í verkfall? Anton Már Gylfason Skoðun Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi Sæunn Kjartansdóttir Skoðun Evrópusambandið eða nasismi Snorri Másson Skoðun Val Vigdísar Skúli Ólafsson Skoðun SVEIT – Kastið inn handklæðinu Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Opið bréf til Íslandspósts ohf. Gróa Jóhannsdóttir Skoðun Friður eða svikalogn? Hilmari Þór Hilmarssyni, prófessor, svarað Andri Þorvarðarson Skoðun Gaza getur ekki beðið lengur Hjálmtýr Heiðdal,Magnús Magnússon Skoðun Ísland yrði betra með aðild að Evrópusambandinu Jón Frímann Jónsson Skoðun Friður á jörðu Þröstur Friðfinnsson Skoðun
Ég er smám saman að átta mig á því að ég eldist. Uppgötvunin er hægfara, líklega talsvert hægari en öldrun mín. Að mínu mati er það þó merki um þroska en ekki elli að ég hafi óskað eftir Birkenstock-inniskóm, tekatli og heilsukodda í afmælisgjöf. Enda hefur lífið snarbatnað. Bakverkurinn á brott með Birkenstock, hálsrígurinn horfinn með heilsukoddanum og te … Te er gott. Félagsvistin í félagsmiðstöð eldri borgara rennir enn síður stoðum undir öldrunina, því sjaldan hefur mér liðið jafnungri og þar. Það er hreint mótefni gegn aldurskomplexum að mæta á svoleiðis samkomu. Maður bókstaflega valhoppar út, í svakalega góðu formi. Það sem hins vegar hefur staðfest grun minn um að ég eldist eins og aðrir er einmitt hitt: Unglingarnir. Skyndilega eru komnir nýir unglingar. Og ég man bara ekkert hvað það er. Um daginn var ég á heimleið á myrku kvöldi. Ég er yfirleitt í svona kápujakka, svörtum með mjög stórri hettu og þegar það er rigning eða kalt, eins og þetta kvöld set ég hettuna yfir allt höfuðið, en hún er miklu stærri en höfuðið á mér svo hún nær langt fram. Dálítið svipað og hjá manninum með ljáinn. Nema hvað, ég geng þarna í hægðum mínum (ljálaus og grandalaus) og fyrir framan mig er unglingsstelpa á sömu leið. Hún lítur aftur og þegar hún sér mig hleypur hún af stað eins og fætur toga. Mér finnst þetta dálítið skondið. Fyrst. Brátt hægir hún á ferðinni, en lítur svo aftur við og rýkur af stað. Þegar þetta hefur gerst nokkrum sinnum er ég orðin mjög pirruð og farin að greikka sporið á eftir grey stelpunni. „Hvað heldur hún eiginlega að ég ætli að gera henni?“ hugsa ég mjög sár og dálítið reið. Ég lái ekki stúlkunni að hafa hlaupið. Þarna fann ég ekkert sérstaklega fyrir aldrinum og hagaði mér sannarlega ekki samkvæmt honum. Komplexarnir dundu hins vegar á mér á mánudaginn þegar ég mætti unglingspilt sem brosti til mín og hneigði höfuðið dálítið. Hann hefði líklega tekið ofan, en hann var hattlaus. Haltrandi og hokin staulaðist ég áfram leiðar minnar.