Fordómar í bókabúðinni Halla Þórlaug Óskarsdóttir skrifar 23. apríl 2014 10:00 Það er sunnudagur. Vor í lofti og keimur af komandi sumri. Kaffiilmurinn á Skólavörðustígnum segir þér að vorvindarnir glöðu séu í kaffipásu. Þú trítlar í inn í bókaverslun, ætlar að gera vel við þig, enda búin með verkefni helgarinnar. Hvað er þá huggulegra en splunkuný bók með kaffibollanum? Þú lokar augunum og ímyndar þér lyktina af ólesnum blaðsíðunum. Stynur í alsælu: „Mhm!“ Opnar augun og horfir í kringum þig. Hvílíkur bókafjöldi. Þú útilokar barnabækurnar strax, sem og fræðibækurnar. Þig langar í eitthvað sem göfgar andann án þess að krefjast stórfelldra heilabrota. Bók sem fær þig til að líta upp, píra augun og brosa í laumi, mæna út í bláinn og anda djúpt. En hvar er þessi bók? Þú gætir auðvitað spurt starfsmanninn sem stendur ábúðarfullur við kassann, nú eða þann sem er á vappi þarna með bókastaflann, en þig langar að finna hana sjálf. Bókina. Auk þess sem þú veist að starfsmaðurinn hefur engan skilning á sálarlífi þínu. Í dag ertu þess fullviss að enginn skilji þig raunverulega til fullnustu. Í dag er einhvern veginn öðruvísi dagur og vinsældalistarnir tala ekki einu sinni til þín. Svo þú ríður einfaldlega á vaðið. Þarna er fallega gulleit bók með gamalli ljósmynd. Áferðin er hrjúf á sýniseintakinu. Hin eru pökkuð inn í plast og þú finnur til með þeim. Það þýðir ekkert að lykta af blaðsíðum sýniseintaksins, ilmurinn er löngu horfinn. Þú handfjatlar bókina þar til þú rekur augun í aðra. Sú er falleg! Bókarkápan er það fyrsta sem fólk sér og hún gefur því tóninn. Sumar bækur get ég til dæmis ekki hugsað mér að lesa því kápan er svo ömurleg. Ég skammast mín fyrir að viðurkenna það. Fegurð kápunnar er þó ekki jafnmikilvæg og hreinskilni hennar. Fræðibækur eiga til dæmis ekki að þykjast vera unglingadrama og krimmar ættu ekki dulbúast sem erótískar framhaldssögur. Ég beini því orðum mínum til bóka þegar ég segi: Verið eins sjarmerandi og þið getið, leggið ykkur fram og heillið vænlega lesendur, en umfram allt: Komið til dyranna eins og þið eruð klæddar, ekki þykjast vera annað en þið eruð. Því þegar allt kemur til alls er það innihaldið sem skiptir máli. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Halla Þórlaug Óskarsdóttir Mest lesið Af hverju eru kennarar að fara í verkfall? Anton Már Gylfason Skoðun Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi Sæunn Kjartansdóttir Skoðun Evrópusambandið eða nasismi Snorri Másson Skoðun SVEIT – Kastið inn handklæðinu Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Opið bréf til Íslandspósts ohf. Gróa Jóhannsdóttir Skoðun Gaza getur ekki beðið lengur Hjálmtýr Heiðdal,Magnús Magnússon Skoðun Friður eða svikalogn? Hilmari Þór Hilmarssyni, prófessor, svarað Andri Þorvarðarson Skoðun Ísland yrði betra með aðild að Evrópusambandinu Jón Frímann Jónsson Skoðun Munu næstu fjögur ár nægja? Kolbrún Halldórsdóttir Skoðun Hugvíkkandi efni: Forvitni umfram dómhörku Bergsveinn Ólafsson Skoðun
Það er sunnudagur. Vor í lofti og keimur af komandi sumri. Kaffiilmurinn á Skólavörðustígnum segir þér að vorvindarnir glöðu séu í kaffipásu. Þú trítlar í inn í bókaverslun, ætlar að gera vel við þig, enda búin með verkefni helgarinnar. Hvað er þá huggulegra en splunkuný bók með kaffibollanum? Þú lokar augunum og ímyndar þér lyktina af ólesnum blaðsíðunum. Stynur í alsælu: „Mhm!“ Opnar augun og horfir í kringum þig. Hvílíkur bókafjöldi. Þú útilokar barnabækurnar strax, sem og fræðibækurnar. Þig langar í eitthvað sem göfgar andann án þess að krefjast stórfelldra heilabrota. Bók sem fær þig til að líta upp, píra augun og brosa í laumi, mæna út í bláinn og anda djúpt. En hvar er þessi bók? Þú gætir auðvitað spurt starfsmanninn sem stendur ábúðarfullur við kassann, nú eða þann sem er á vappi þarna með bókastaflann, en þig langar að finna hana sjálf. Bókina. Auk þess sem þú veist að starfsmaðurinn hefur engan skilning á sálarlífi þínu. Í dag ertu þess fullviss að enginn skilji þig raunverulega til fullnustu. Í dag er einhvern veginn öðruvísi dagur og vinsældalistarnir tala ekki einu sinni til þín. Svo þú ríður einfaldlega á vaðið. Þarna er fallega gulleit bók með gamalli ljósmynd. Áferðin er hrjúf á sýniseintakinu. Hin eru pökkuð inn í plast og þú finnur til með þeim. Það þýðir ekkert að lykta af blaðsíðum sýniseintaksins, ilmurinn er löngu horfinn. Þú handfjatlar bókina þar til þú rekur augun í aðra. Sú er falleg! Bókarkápan er það fyrsta sem fólk sér og hún gefur því tóninn. Sumar bækur get ég til dæmis ekki hugsað mér að lesa því kápan er svo ömurleg. Ég skammast mín fyrir að viðurkenna það. Fegurð kápunnar er þó ekki jafnmikilvæg og hreinskilni hennar. Fræðibækur eiga til dæmis ekki að þykjast vera unglingadrama og krimmar ættu ekki dulbúast sem erótískar framhaldssögur. Ég beini því orðum mínum til bóka þegar ég segi: Verið eins sjarmerandi og þið getið, leggið ykkur fram og heillið vænlega lesendur, en umfram allt: Komið til dyranna eins og þið eruð klæddar, ekki þykjast vera annað en þið eruð. Því þegar allt kemur til alls er það innihaldið sem skiptir máli.