Typpisleysið fækkar lesendum Friðrika Benónýsdóttir skrifar 17. maí 2014 11:30 Björg Magnúsdóttir segist alltaf munu skrifa, en sér ekki fyrir sér að gera starf rithöfundarins að fullu starfi og sitja ein við skriftir. "Það hljómar voðalega döll.“ Vísir/Vilhelm Það er dálítið stressuð týpa sem mætir á Loft hostel í rigningarsudda á miðvikudagsmorgni. Biðin eftir því að nýja bókin, Þessi týpa, komi út tekur á taugar Bjargar Magnúsdóttur, þótt hún hafi alveg nóg annað að gera en velta sér upp úr því hvernig bókinni verður tekið. „Þetta er ofsalega skrítinn tími. Ég skilaði loka-, loka-, lokaútgáfu af bókinni núna í mars, en þá var ég búin að baða mig upp úr efninu stanslaust síðan í júní í fyrra. Það er undarleg tilfinning að vera að senda frá sér efni núna sem var í hausnum á mér fyrir ári og ég þarf dálítið að einbeita mér að því að fókusera á réttu hlutina. En sem betur fer hef ég nóg annað að gera en að hugsa um hvernig bókin fer í lesendur.“ Björg vinnur sem fréttamaður á fréttastofu RÚV og verður þar þangað til í haust. Hún væri alveg til í að vera þar áfram en var ein þeirra sem lentu undir niðurskurðarhnífnum og fékk ekki framlengdan samning. „Þeir reyndu sko að segja mér upp í vetur, en réðu mig svo aftur út sumarið. Þá veit ég ekkert hvað tekur við, en hef engar áhyggjur af því enn þá. Ég hef áhuga á svo mörgu og er komin með hugmynd að nýrri bók, svo ég verð ekkert verklaus. Mig langar mikið til að fara aðeins til útlanda og er búin að finna hinn fullkomna stað í Nepal til að skrifa næstu bók, en það kemur bara allt í ljós.“Ef Facebook væri gata í Reykjavík Björg er Hafnfirðingur að uppruna, alin upp í Setberginu, en býr nú í Vesturbæ Reykjavíkur og telur sig Vesturbæing. Hún lærði stjórnmálafræði og hagnýta menningarmiðlun í HÍ en segist aldrei hafa tekið þá ákvörðun að verða rithöfundur, hún hafi einfaldlega verið skrifandi sögur síðan hún man eftir sér. Nú sé hún hins vegar orðin 29 ára og hið skelfilega þrítugsafmæli vofir yfir. Það sé reyndar ekki eins ógnvekjandi og afþreyingariðnaðurinn vilji vera láta að verða þrítug, en það sé samt áminning um að aldurinn færist yfir. „Ég held að mín kynslóð þjáist dálítið af því að hafa allt of marga möguleika. Við fáum allt upp í hendurnar og erum ofdekruð. Ég held að það sé að skapa klemmu hjá fólki á mínum aldri núna. Við erum komin dálítið langt sé tekið mið af árum en höfum kannski ekki gert neitt mikið.“ Björg getur þó varla kvartað yfir því að hafa ekki gert neitt, sendandi frá sér sína aðra skáldsögu fyrir þrítugt. Hún rekur upphaf rithöfundarferilsins til myndatexta sem hún samdi við myndir í fjölskyldualbúminu. „Ég lagði mikið upp úr því að skrifa góða myndatexta og þar byrjaði ég að beita húmornum. Myndaalbúmin eru reyndar liðin tíð og Facebook um það bil að líða undir lok, sýnist mér. Til að byrja með lagði maður mikla vinnu í að skrifa smellna statusa en ég er orðin mjög fráhverf þeim miðli. Ef Facebook væri gata í Reykjavík þá myndi aldrei neinn fara niður þá götu. Hópur af fólki, allir með eigið gjallarhorn æpandi: Ég var að koma úr ræktinni! Ég var að baka bananabrauð! Lestu þessa frétt! Þetta er svo mikið drasl og ekkert gaman lengur en að því sögðu þá má auðvitað nota þennan miðil til einhvers og kannski kemur Facebook að meira gagni í samfélögum þar sem er meira „að“ og fólk þarf að hafa rödd til að koma einhverju mikilvægu á framfæri. Hér er þetta bara ruslahaugur, en eins og á öllum ruslahaugum finnst þar þó gull inn á milli.“Af hverju er Illska ekki gæjabók? Það er ekki hægt að taka viðtal við rithöfund án þess að talið berist að ritverkunum. Nýja bókin, Þessi týpa, heldur áfram að segja sögu stallnanna fjögurra, Bryndísar, Regínu, Tinnu og Ingu, sem við kynntumst í fyrri bókinni Ekki þessi týpa. Eiga þær sér raunverulegar fyrirmyndir í vinahópi Bjargar? „Nja, ég hef mest verið að skrifa um það sem ég upplifi og var komin með mikla þörf fyrir að koma því í einhvern farveg. Ég fór að velta því fyrir mér hvernig best væri að koma þessu frá mér. Ég er rödd einhverrar kynslóðar, þetta er veruleiki sem ég þekki vel, margt fyndið og skemmtilegt sem ég hef upplifað í mínu nánasta umhverfi, er ekki upplagt að byrja með þetta setting? Önnur spurning var hvernig konur mér þykir áhugavert að lesa um og mér fannst vanta svona bók eins og kom út eftir mig í fyrra. Mér finnst nefnilega mikið af því efni sem er byggt á konum, þessar svokölluðu skvísubækur eins og mínar bækur eru flokkaðar, vera bölvað drasl. Þannig að ég vildi leggja eitthvað á borðið í staðinn fyrir að vera bara tuðandi yfir því hvað þessar bækur væru allar ömurlegar, sem mér finnst reyndar alls ekki. Þær eru bara eins misjafnar og höfundarnir eru margir. Mér fannst mikilvægt að búa til kvenkaraktera sem eru, að mínu mati, fyndnir en eiga samt í samræðum um alls konar hluti sem skipta máli. Ég tilheyri nokkrum svona vinkvennahópum og held að flestir geti sagt það sama. Kannski er þessi klisja um vinkonurnar fjórar klisja af góðri ástæðu.“ Flokkunin skvísubækur hefur verið nokkuð umdeild og farið í taugarnar á mörgun og Björg er alveg sammála því að hún sé alltof þröng og gefi rangar upplýsingar um innihald bóka. „Ég finn alveg fyrir því að fólk hefur vissa fordóma fyrir skvísubókum og margir hafa spurt mig hvort ég ætli ekki að fara að skrifa eitthvað annað. Eins og það sé ekki nógu gott að skrifa um skvísur. Eins og þetta sé ekki bara fullboðleg skáldsaga eins og hver önnur. Mér finnst það alls ekki sanngjarnt gagnvart greininni. Það má ekki tala hana niður en um leið á auðvitað að gera kröfur um gæði efnisins. Svo skil ég heldur ekki hvers vegna skáldsaga um ungar konur er átómatískt flokkuð sem skvísubók en ekki skáldsaga? Eiríkur Örn Norðdahl fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Illsku sem fjallar um ungan karlmann. Af hverju var sú bók ekki flokkuð sem gæjabók? Ég vil breyta þessu. Ég held að með þessari flokkun séum við að gera okkur ákveðinn óleik. Með því að markaðssetja bók sem skvísubók er búið að planta því í huga karlmanna að bókin sé bara fyrir konur. Þá spyr ég á móti: Eiga þá bara miðaldra karlar að lesa Arnald? Hann er miðaldra karl að skrifa um miðaldra karl, svo það væri eðlilegt samkvæmt þessari skilgreiningu. Ef tilgangur bóka er einhver hlýtur hann að vera að brjóta niður fordóma og landamæri, segja frá því sem er að gerast hjá hópum sem lesandinn þekkir ekki. Af hverju ættum við bara að lesa bækur sem eru skrifaðar af einhverjum sem hugsar eins og við? Það meikar engan sens. Mér finnst alveg glatað að vera ung kona að skrifa um eigin veruleika og vera allt í einu komin með helmingi færri lesendur af því að ég er ekki með typpi. Það er ekkert réttlæti í því.“Heppin að vera dimmrödduð Flestar skvísubækur enda með því að söguhetjurnar finna draumaprinsinn og lifa hamingjusamlega upp frá því. Það finnst Björgu stórfurðulegt. „Ég er alin upp á Íslandi og það hefur aldrei verið markmið mitt í lífinu að ganga út. Það hljómar sem ógeðslega boring líf. Ég hef aldrei fundið fyrir neinni löngun til að gifta mig og eignast börn. En kannski kemur að því. Ég hef heldur ekki fundið mann sem mig langar til að vera með það sem eftir er ævinnar.“ Nú erum við komnar á kaf í umræðu um stöðu kvenna og viðhorf til þeirra í samfélaginu og Björg talar sig heita um það að viðhorfin séu að breytast og hún samþykki engan veginn að konur geti ekki komist hvert sem þær vilja. Skyndilega stoppar hún þó í miðri setningu og segir að, jú, kannski hafi hún fundið fyrir ákveðnum fordómum gegn konum í starfi sínu sem fréttamaður. „Ég auðvitað vinn við það að lesa fréttir og það hefur oft verið sagt við mig að ég sé rosalega heppin að vera svona dimmrödduð, það sé svo óþolandi að hlusta á skrækar kvenraddir flytja fréttir. Það er hræðilegt viðhorf og ég vildi óska að konur með kvenlegar raddir fengju stuðning frá yfirmönnum til að láta raddir sínar heyrast í fréttunum. Það er ekki þeirra að bakka út og láta ekki í sér heyra, það er samfélagsins að stilla eyru sín betur.“ Umræður um kvennakúgun halda áfram og þótt Björg sé hörð á því að konur njóti virðingar burtséð frá kynferðinu getur hún þó ekki mælt á móti því að mun meiri áhersla sé lögð á fegurð kvenna í sviðsljósinu en karla. „Það hefur verið offramboð af ógeðslega sætum konum í öllu afþreyingarefni síðan ég man eftir mér. Þær hafa oft ekkert að segja, eru bara svakalega sætar og það lekur af þeim kynþokkinn. Þannig að auðvitað er maður alinn upp við þau skilaboð að maður verði að vera sætur. Mér finnst þetta ömurlegt og ég veit að þetta hefur áhrif. Ég hef alveg farið í gegnum tímabil þar sem mér finnst ég feit og ömurleg og ekki nógu sæt. Og hvað á ég þá eiginlega að gera? Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að kynna eitthvert mótframboð. Segja við sjálfa mig: ég ætla að kveikja ljós, nenni ekki að bölva því hvað allt sé dimmt og ömurlegt. Útkoman er ekkert endilega fullkomin en ég vildi samt leggja hana á borðið: hér eru fjórar stelpur sem geta talað um eitthvað annað en varaliti, hælaskó og draumaprinsinn. Mér finnst sú umræða ekki skipta neinu máli. Ég er alin upp í því að gáfur trompi útlit. Ef þú hugsar um lífið sem langhlaupið sem það er þá áttu frekar að fókusera á það að afla þér upplýsinga, lesa, kynnast ólíkum menningarheimum, vera skemmtileg. Það leiðinlega við fegurðina er nefnilega að hún toppar um 25 ára aldur og svo liggur leiðin bara niður á við. Ég ætla að lifa lengi og vil að styrkur minn liggi í einhverju öðru en að vera sæt, það endist svo voðalega stutt.“Næsta bók á allt öðrum nótum Þessi týpa skilur við þær vinkonurnar með allt opið og því eðlilegt að spyrja hvort von sé á fleiri bókum um þær. Björg segist ekki vera viss. „Ég er með margar rosalega skemmtilegar hugmyndir um hvernig þær þróast, svo ég veit ekki hvort ég muni skrifa eina bók enn um þær. Sú hugmynd sem núna er búin að skjóta rótum í höfðinu á mér er hins vegar af allt öðrum toga, þannig að næsta bók verður ekki framhald af þessari. Ég sá alltaf fyrir mér að skrifa tvær bækur um þennan vinkvennahóp og vissulega finnst mér þetta enn mjög djúsí heimur, þessi veruleiki ungra kvenna og karla, og ég veit að þetta er áhugavert því ég sé það á hverjum einasta degi. En það er líka alveg möguleiki að sækja efni í þennan heim til að búa til eitthvað allt annað, nýja karaktera, sjónvarpsþætti eða eitthvað. Það kemur allt til greina.“ Sérðu það fyrir þér að gerast rithöfundur í fullu starfi? „Ég mun alltaf skrifa, ég veit það. Mig langar að segja alls konar sögur í alls konar formi, en ég held ég gæti aldrei setið allan daginn ein og skrifað, það hljómar voðalega döll. Ég vil vera í auga stormsins, þar sem hlutirnir eru að gerast. Ég þyrfti þá að halda veislur á hverju kvöldi og bjóða öllum vinum mínum til að finnast ekki að ég væri dottin úr sambandi við heiminn.“ Menning Mest lesið Fötlunin ekki stærsta áfallið heldur veikindin sem fylgdu Lífið Kenndi sjálfum sér um í tuttugu ár Lífið „Lífið væri svo miklu leiðinlegra ef ég ætti ekki bróður með Downs“ Lífið Grundvallarmisskilnings gæti um þaksvalir á Íslandi Lífið Þetta eru keppendur Söngvakeppninnar 2025 Lífið Mótmæltu keppninni í fyrra en ætla sér alla leið í ár Lífið Fréttatía vikunnar: Bólfélagar, fjársvik og flóð Lífið Ragna Sigurðardóttir á von á barni Lífið Erling og Sigríður selja húsið eftir átján ár Lífið Troðfullt hús og standandi lófaklapp Menning Fleiri fréttir Troðfullt hús og standandi lófaklapp „Persónan Elmar er alls ekki Helgi“ Skrumskæld mynd af Helga Skúla í Vigdísarþáttum Ætlar aldrei aftur til Tenerife: „Þetta er hræðilegur staður“ Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira
Það er dálítið stressuð týpa sem mætir á Loft hostel í rigningarsudda á miðvikudagsmorgni. Biðin eftir því að nýja bókin, Þessi týpa, komi út tekur á taugar Bjargar Magnúsdóttur, þótt hún hafi alveg nóg annað að gera en velta sér upp úr því hvernig bókinni verður tekið. „Þetta er ofsalega skrítinn tími. Ég skilaði loka-, loka-, lokaútgáfu af bókinni núna í mars, en þá var ég búin að baða mig upp úr efninu stanslaust síðan í júní í fyrra. Það er undarleg tilfinning að vera að senda frá sér efni núna sem var í hausnum á mér fyrir ári og ég þarf dálítið að einbeita mér að því að fókusera á réttu hlutina. En sem betur fer hef ég nóg annað að gera en að hugsa um hvernig bókin fer í lesendur.“ Björg vinnur sem fréttamaður á fréttastofu RÚV og verður þar þangað til í haust. Hún væri alveg til í að vera þar áfram en var ein þeirra sem lentu undir niðurskurðarhnífnum og fékk ekki framlengdan samning. „Þeir reyndu sko að segja mér upp í vetur, en réðu mig svo aftur út sumarið. Þá veit ég ekkert hvað tekur við, en hef engar áhyggjur af því enn þá. Ég hef áhuga á svo mörgu og er komin með hugmynd að nýrri bók, svo ég verð ekkert verklaus. Mig langar mikið til að fara aðeins til útlanda og er búin að finna hinn fullkomna stað í Nepal til að skrifa næstu bók, en það kemur bara allt í ljós.“Ef Facebook væri gata í Reykjavík Björg er Hafnfirðingur að uppruna, alin upp í Setberginu, en býr nú í Vesturbæ Reykjavíkur og telur sig Vesturbæing. Hún lærði stjórnmálafræði og hagnýta menningarmiðlun í HÍ en segist aldrei hafa tekið þá ákvörðun að verða rithöfundur, hún hafi einfaldlega verið skrifandi sögur síðan hún man eftir sér. Nú sé hún hins vegar orðin 29 ára og hið skelfilega þrítugsafmæli vofir yfir. Það sé reyndar ekki eins ógnvekjandi og afþreyingariðnaðurinn vilji vera láta að verða þrítug, en það sé samt áminning um að aldurinn færist yfir. „Ég held að mín kynslóð þjáist dálítið af því að hafa allt of marga möguleika. Við fáum allt upp í hendurnar og erum ofdekruð. Ég held að það sé að skapa klemmu hjá fólki á mínum aldri núna. Við erum komin dálítið langt sé tekið mið af árum en höfum kannski ekki gert neitt mikið.“ Björg getur þó varla kvartað yfir því að hafa ekki gert neitt, sendandi frá sér sína aðra skáldsögu fyrir þrítugt. Hún rekur upphaf rithöfundarferilsins til myndatexta sem hún samdi við myndir í fjölskyldualbúminu. „Ég lagði mikið upp úr því að skrifa góða myndatexta og þar byrjaði ég að beita húmornum. Myndaalbúmin eru reyndar liðin tíð og Facebook um það bil að líða undir lok, sýnist mér. Til að byrja með lagði maður mikla vinnu í að skrifa smellna statusa en ég er orðin mjög fráhverf þeim miðli. Ef Facebook væri gata í Reykjavík þá myndi aldrei neinn fara niður þá götu. Hópur af fólki, allir með eigið gjallarhorn æpandi: Ég var að koma úr ræktinni! Ég var að baka bananabrauð! Lestu þessa frétt! Þetta er svo mikið drasl og ekkert gaman lengur en að því sögðu þá má auðvitað nota þennan miðil til einhvers og kannski kemur Facebook að meira gagni í samfélögum þar sem er meira „að“ og fólk þarf að hafa rödd til að koma einhverju mikilvægu á framfæri. Hér er þetta bara ruslahaugur, en eins og á öllum ruslahaugum finnst þar þó gull inn á milli.“Af hverju er Illska ekki gæjabók? Það er ekki hægt að taka viðtal við rithöfund án þess að talið berist að ritverkunum. Nýja bókin, Þessi týpa, heldur áfram að segja sögu stallnanna fjögurra, Bryndísar, Regínu, Tinnu og Ingu, sem við kynntumst í fyrri bókinni Ekki þessi týpa. Eiga þær sér raunverulegar fyrirmyndir í vinahópi Bjargar? „Nja, ég hef mest verið að skrifa um það sem ég upplifi og var komin með mikla þörf fyrir að koma því í einhvern farveg. Ég fór að velta því fyrir mér hvernig best væri að koma þessu frá mér. Ég er rödd einhverrar kynslóðar, þetta er veruleiki sem ég þekki vel, margt fyndið og skemmtilegt sem ég hef upplifað í mínu nánasta umhverfi, er ekki upplagt að byrja með þetta setting? Önnur spurning var hvernig konur mér þykir áhugavert að lesa um og mér fannst vanta svona bók eins og kom út eftir mig í fyrra. Mér finnst nefnilega mikið af því efni sem er byggt á konum, þessar svokölluðu skvísubækur eins og mínar bækur eru flokkaðar, vera bölvað drasl. Þannig að ég vildi leggja eitthvað á borðið í staðinn fyrir að vera bara tuðandi yfir því hvað þessar bækur væru allar ömurlegar, sem mér finnst reyndar alls ekki. Þær eru bara eins misjafnar og höfundarnir eru margir. Mér fannst mikilvægt að búa til kvenkaraktera sem eru, að mínu mati, fyndnir en eiga samt í samræðum um alls konar hluti sem skipta máli. Ég tilheyri nokkrum svona vinkvennahópum og held að flestir geti sagt það sama. Kannski er þessi klisja um vinkonurnar fjórar klisja af góðri ástæðu.“ Flokkunin skvísubækur hefur verið nokkuð umdeild og farið í taugarnar á mörgun og Björg er alveg sammála því að hún sé alltof þröng og gefi rangar upplýsingar um innihald bóka. „Ég finn alveg fyrir því að fólk hefur vissa fordóma fyrir skvísubókum og margir hafa spurt mig hvort ég ætli ekki að fara að skrifa eitthvað annað. Eins og það sé ekki nógu gott að skrifa um skvísur. Eins og þetta sé ekki bara fullboðleg skáldsaga eins og hver önnur. Mér finnst það alls ekki sanngjarnt gagnvart greininni. Það má ekki tala hana niður en um leið á auðvitað að gera kröfur um gæði efnisins. Svo skil ég heldur ekki hvers vegna skáldsaga um ungar konur er átómatískt flokkuð sem skvísubók en ekki skáldsaga? Eiríkur Örn Norðdahl fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Illsku sem fjallar um ungan karlmann. Af hverju var sú bók ekki flokkuð sem gæjabók? Ég vil breyta þessu. Ég held að með þessari flokkun séum við að gera okkur ákveðinn óleik. Með því að markaðssetja bók sem skvísubók er búið að planta því í huga karlmanna að bókin sé bara fyrir konur. Þá spyr ég á móti: Eiga þá bara miðaldra karlar að lesa Arnald? Hann er miðaldra karl að skrifa um miðaldra karl, svo það væri eðlilegt samkvæmt þessari skilgreiningu. Ef tilgangur bóka er einhver hlýtur hann að vera að brjóta niður fordóma og landamæri, segja frá því sem er að gerast hjá hópum sem lesandinn þekkir ekki. Af hverju ættum við bara að lesa bækur sem eru skrifaðar af einhverjum sem hugsar eins og við? Það meikar engan sens. Mér finnst alveg glatað að vera ung kona að skrifa um eigin veruleika og vera allt í einu komin með helmingi færri lesendur af því að ég er ekki með typpi. Það er ekkert réttlæti í því.“Heppin að vera dimmrödduð Flestar skvísubækur enda með því að söguhetjurnar finna draumaprinsinn og lifa hamingjusamlega upp frá því. Það finnst Björgu stórfurðulegt. „Ég er alin upp á Íslandi og það hefur aldrei verið markmið mitt í lífinu að ganga út. Það hljómar sem ógeðslega boring líf. Ég hef aldrei fundið fyrir neinni löngun til að gifta mig og eignast börn. En kannski kemur að því. Ég hef heldur ekki fundið mann sem mig langar til að vera með það sem eftir er ævinnar.“ Nú erum við komnar á kaf í umræðu um stöðu kvenna og viðhorf til þeirra í samfélaginu og Björg talar sig heita um það að viðhorfin séu að breytast og hún samþykki engan veginn að konur geti ekki komist hvert sem þær vilja. Skyndilega stoppar hún þó í miðri setningu og segir að, jú, kannski hafi hún fundið fyrir ákveðnum fordómum gegn konum í starfi sínu sem fréttamaður. „Ég auðvitað vinn við það að lesa fréttir og það hefur oft verið sagt við mig að ég sé rosalega heppin að vera svona dimmrödduð, það sé svo óþolandi að hlusta á skrækar kvenraddir flytja fréttir. Það er hræðilegt viðhorf og ég vildi óska að konur með kvenlegar raddir fengju stuðning frá yfirmönnum til að láta raddir sínar heyrast í fréttunum. Það er ekki þeirra að bakka út og láta ekki í sér heyra, það er samfélagsins að stilla eyru sín betur.“ Umræður um kvennakúgun halda áfram og þótt Björg sé hörð á því að konur njóti virðingar burtséð frá kynferðinu getur hún þó ekki mælt á móti því að mun meiri áhersla sé lögð á fegurð kvenna í sviðsljósinu en karla. „Það hefur verið offramboð af ógeðslega sætum konum í öllu afþreyingarefni síðan ég man eftir mér. Þær hafa oft ekkert að segja, eru bara svakalega sætar og það lekur af þeim kynþokkinn. Þannig að auðvitað er maður alinn upp við þau skilaboð að maður verði að vera sætur. Mér finnst þetta ömurlegt og ég veit að þetta hefur áhrif. Ég hef alveg farið í gegnum tímabil þar sem mér finnst ég feit og ömurleg og ekki nógu sæt. Og hvað á ég þá eiginlega að gera? Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að kynna eitthvert mótframboð. Segja við sjálfa mig: ég ætla að kveikja ljós, nenni ekki að bölva því hvað allt sé dimmt og ömurlegt. Útkoman er ekkert endilega fullkomin en ég vildi samt leggja hana á borðið: hér eru fjórar stelpur sem geta talað um eitthvað annað en varaliti, hælaskó og draumaprinsinn. Mér finnst sú umræða ekki skipta neinu máli. Ég er alin upp í því að gáfur trompi útlit. Ef þú hugsar um lífið sem langhlaupið sem það er þá áttu frekar að fókusera á það að afla þér upplýsinga, lesa, kynnast ólíkum menningarheimum, vera skemmtileg. Það leiðinlega við fegurðina er nefnilega að hún toppar um 25 ára aldur og svo liggur leiðin bara niður á við. Ég ætla að lifa lengi og vil að styrkur minn liggi í einhverju öðru en að vera sæt, það endist svo voðalega stutt.“Næsta bók á allt öðrum nótum Þessi týpa skilur við þær vinkonurnar með allt opið og því eðlilegt að spyrja hvort von sé á fleiri bókum um þær. Björg segist ekki vera viss. „Ég er með margar rosalega skemmtilegar hugmyndir um hvernig þær þróast, svo ég veit ekki hvort ég muni skrifa eina bók enn um þær. Sú hugmynd sem núna er búin að skjóta rótum í höfðinu á mér er hins vegar af allt öðrum toga, þannig að næsta bók verður ekki framhald af þessari. Ég sá alltaf fyrir mér að skrifa tvær bækur um þennan vinkvennahóp og vissulega finnst mér þetta enn mjög djúsí heimur, þessi veruleiki ungra kvenna og karla, og ég veit að þetta er áhugavert því ég sé það á hverjum einasta degi. En það er líka alveg möguleiki að sækja efni í þennan heim til að búa til eitthvað allt annað, nýja karaktera, sjónvarpsþætti eða eitthvað. Það kemur allt til greina.“ Sérðu það fyrir þér að gerast rithöfundur í fullu starfi? „Ég mun alltaf skrifa, ég veit það. Mig langar að segja alls konar sögur í alls konar formi, en ég held ég gæti aldrei setið allan daginn ein og skrifað, það hljómar voðalega döll. Ég vil vera í auga stormsins, þar sem hlutirnir eru að gerast. Ég þyrfti þá að halda veislur á hverju kvöldi og bjóða öllum vinum mínum til að finnast ekki að ég væri dottin úr sambandi við heiminn.“
Menning Mest lesið Fötlunin ekki stærsta áfallið heldur veikindin sem fylgdu Lífið Kenndi sjálfum sér um í tuttugu ár Lífið „Lífið væri svo miklu leiðinlegra ef ég ætti ekki bróður með Downs“ Lífið Grundvallarmisskilnings gæti um þaksvalir á Íslandi Lífið Þetta eru keppendur Söngvakeppninnar 2025 Lífið Mótmæltu keppninni í fyrra en ætla sér alla leið í ár Lífið Fréttatía vikunnar: Bólfélagar, fjársvik og flóð Lífið Ragna Sigurðardóttir á von á barni Lífið Erling og Sigríður selja húsið eftir átján ár Lífið Troðfullt hús og standandi lófaklapp Menning Fleiri fréttir Troðfullt hús og standandi lófaklapp „Persónan Elmar er alls ekki Helgi“ Skrumskæld mynd af Helga Skúla í Vigdísarþáttum Ætlar aldrei aftur til Tenerife: „Þetta er hræðilegur staður“ Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira