Varúð: Ekki fyrir viðkvæma Halla Þórlaug Óskarsdóttir skrifar 4. júní 2014 07:00 Sumt á ekki að skrifa í blöðin. Þessi pistill er dæmi um það. Að því sögðu er líka gjörsamlega ótækt að ræða sumt á kaffihúsum. Þessi pistill fjallar um það. Ef þú ert að drekka morgunkaffið þitt eða borða beyglu skaltu ekki lesa lengra, en það var ég einmitt að fara að gera á kaffihúsi í miðbænum þegar ég settist við hlið unglingahóps. Það var þétt setið á staðnum og ég var ein, svo ég gat ekki að því gert að heyra samræður þeirra. Hópurinn var í miðjum klíðum að rifja upp ölvunarsögur þegar ég settist. Það var greinilega ekki langt síðan þau kynntust Bakkusi, því til dæmis þótti þeim enn mjög fyndið að finna ekki fyrir sársauka undir áhrifum. Samræðurnar leiddust út í afleiðingar ölvunar og þaðan fóru þau að tala um ælupestir. Ein sagði þá í óspurðum fréttum að það væri frábært að drekka kakó þegar maður er með magavírus því þá kæmi svo gott bragð þegar Geysir gysi. (Ég á í stökustu vandræðum með að koma þessu smekklega frá mér. Þau hugsuðu ekkert um það). Þessi saga losaði einhverja stíflu því nú kepptust blessuð börnin við að toppa sögur hvert annars. Ég fékk að heyra um teiknibólur sem ryðguðu uppi í nefinu á einni stúlkunni og myglaða villisveppi á veitingastað. Og svo margt fleira. Beyglan mín var skyndilega ekki jafngirnileg og þegar ég keypti hana. Þau héldu áfram. „Var ég búin að segja ykkur frá því þegar strákur á leikskólanum hnerraði í síðustu viku? Ég hélt sko að hann hefði ælt.“ Nei. Ekki hor. Ég varð að stoppa þetta. „Krakkar, mig langar alls ekki að vera leiðinleg en þið eruð bara að tala um svo ógeðslega hluti að…“ Þau sprungu úr hlátri og ég, skyndilega níræð, sneri mér aftur að ógeðslegu beyglunni minni. Í hlátursrokunum sögðu þau eitthvað um að þau hefðu gleymt að þau væru á almenningsstað. Eftir tveggja mínútna hysterískt hláturskast var stutt, vandræðaleg þögn. „Eruð þið búin að sjá Vonarstræti?“ Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Halla Þórlaug Óskarsdóttir Mest lesið Af hverju eru kennarar að fara í verkfall? Anton Már Gylfason Skoðun Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi Sæunn Kjartansdóttir Skoðun Evrópusambandið eða nasismi Snorri Másson Skoðun SVEIT – Kastið inn handklæðinu Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Opið bréf til Íslandspósts ohf. Gróa Jóhannsdóttir Skoðun Gaza getur ekki beðið lengur Hjálmtýr Heiðdal,Magnús Magnússon Skoðun Friður eða svikalogn? Hilmari Þór Hilmarssyni, prófessor, svarað Andri Þorvarðarson Skoðun Ísland yrði betra með aðild að Evrópusambandinu Jón Frímann Jónsson Skoðun Munu næstu fjögur ár nægja? Kolbrún Halldórsdóttir Skoðun Hugvíkkandi efni: Forvitni umfram dómhörku Bergsveinn Ólafsson Skoðun
Sumt á ekki að skrifa í blöðin. Þessi pistill er dæmi um það. Að því sögðu er líka gjörsamlega ótækt að ræða sumt á kaffihúsum. Þessi pistill fjallar um það. Ef þú ert að drekka morgunkaffið þitt eða borða beyglu skaltu ekki lesa lengra, en það var ég einmitt að fara að gera á kaffihúsi í miðbænum þegar ég settist við hlið unglingahóps. Það var þétt setið á staðnum og ég var ein, svo ég gat ekki að því gert að heyra samræður þeirra. Hópurinn var í miðjum klíðum að rifja upp ölvunarsögur þegar ég settist. Það var greinilega ekki langt síðan þau kynntust Bakkusi, því til dæmis þótti þeim enn mjög fyndið að finna ekki fyrir sársauka undir áhrifum. Samræðurnar leiddust út í afleiðingar ölvunar og þaðan fóru þau að tala um ælupestir. Ein sagði þá í óspurðum fréttum að það væri frábært að drekka kakó þegar maður er með magavírus því þá kæmi svo gott bragð þegar Geysir gysi. (Ég á í stökustu vandræðum með að koma þessu smekklega frá mér. Þau hugsuðu ekkert um það). Þessi saga losaði einhverja stíflu því nú kepptust blessuð börnin við að toppa sögur hvert annars. Ég fékk að heyra um teiknibólur sem ryðguðu uppi í nefinu á einni stúlkunni og myglaða villisveppi á veitingastað. Og svo margt fleira. Beyglan mín var skyndilega ekki jafngirnileg og þegar ég keypti hana. Þau héldu áfram. „Var ég búin að segja ykkur frá því þegar strákur á leikskólanum hnerraði í síðustu viku? Ég hélt sko að hann hefði ælt.“ Nei. Ekki hor. Ég varð að stoppa þetta. „Krakkar, mig langar alls ekki að vera leiðinleg en þið eruð bara að tala um svo ógeðslega hluti að…“ Þau sprungu úr hlátri og ég, skyndilega níræð, sneri mér aftur að ógeðslegu beyglunni minni. Í hlátursrokunum sögðu þau eitthvað um að þau hefðu gleymt að þau væru á almenningsstað. Eftir tveggja mínútna hysterískt hláturskast var stutt, vandræðaleg þögn. „Eruð þið búin að sjá Vonarstræti?“