Hann er staddur hér á landi í sinni síðustu heimsókn sem framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins. Áætlað er að hann láti af embætti í lok næsta mánaðar.
Fogh Rasmussen átti fund með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra og ræddi meðal annars stöðuna í Úkraínu en þar hafa geisað átök um margra mánaða skeið.
„Ég held að leiðtogar í Kreml séu meðvitaðir um það að minnsta tilraun til að ógna aðildarríkjum okkar muni vekja mjög hörð viðbrögð frá okkar hlið. Tilvist Atlantshafsbandalagsins, ein og sér, mun koma í veg fyrir árás Rússa á aðildarríki,“ sagði hann.
Á fundinum greindi Fogh Rasmussen meðal annars frá þrískiptum aðgerðum Atlantshafsbandalagsins til varnar gegn auknum afskiptum Rússa á Eystrasaltssvæðinu og í Austur-Evrópu.
Í fyrsta lagi hefur lofthelgisgæsla verið aukin til muna í Eystrasaltslöndunum. Jafnframt hafa flotar á Eystrasaltinu og Svartahafi verið búnir undir að bregðast hratt við hættuástandi.
Í öðru lagi mun Atlantshafsbandalagið auka samvinnu sína við Úkraínu til að styrkja herafla landsins. Nútímavæðing heraflans og endurskipulagning mun eiga sér stað.
Í þriðja lagi hefur samvinnu við Rússland verið slitið. Enn er opið fyrir pólitíska samræðu á milli Rússlands og Atlantshafsbandalagsins en að öðru leyti hefur afskiptum verið slitið. Sú ákvörðun var tekin í apríl á þessu ári.

„Á þessum óvissutímum þörfnumst við Atlantshafsbandalagsins meira en nokkru sinni. Ég treysti á stuðning Íslands til að skýra línurnar og gera bandalagið traustara og sveigjanlegra,“ sagði Fogh Rasmussen meðal annars.
Hann segir að breytt staða í Evrópu af völdum Rússa sé ein ástæða þess að mikilvægi hnattrænnar stöðu Íslands hafi aukist á ný.
„Við sjáum enga yfirvofandi hættu fyrir Ísland en við höfum tækifæri til að auka mjög gæslu í lofthelgi Íslands með skömmum fyrirvara ef nauðsyn krefur,“ sagði Fogh Rasmussen á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum í gær.
„Ég held að megi með sanni segja að hnattræn staða Íslands sé orðin mikilvægari. Ekki einungis vegna ástandsins í Evrópu, sem er til orðið vegna ólöglegra hernaðaraðgerða Rússlands í Úkraínu, heldur líka vegna loftslagsbreytinga.“
Bráðnun hafíss hafi opnað siglingaleiðir um norðurskautið sem áður hafi ekki verið mögulegar.