Haustboðar ljúfir Halla Þórlaug Óskarsdóttir skrifar 27. ágúst 2014 07:00 Það er komið haust. Ég get sagt það fullum fetum án þess að blikna. Ástæðan fyrir því að ég veit það fyrir víst er að ég er búin að sjá að minnsta kosti tuttugu myndir af litlum börnum með gríðarstórar skólatöskur á bakinu á Facebook. Þau eru grunlaus og eftirvæntingarfull á leið út í sinn fyrsta skóladag. Ég veit það líka af því að strákurinn í næstu íbúð er aftur farinn að æfa Entertainer á píanóið. Ég man ótrúlega margt úr æsku. Ég á minningar frá flutningum úr Breiðholtinu yfir í Þingholtin, en þá var ég ekki orðin þriggja ára. Ég man eftir ítalska kokkinum á leikskólanum og þegar ég fór einsömul í róluna í næsta garði þegar ég var nýflutt. Ég man eftir rauðri blöðru sem slapp upp í loftið á leikvellinum, man þegar ég kynntist bestu vinkonu minni á leikskólanum og ég man eftir fyrstu skólatöskunni minni. En ég man ekki eftir fyrsta skóladeginum. Þó á ég margar minningar úr fyrsta bekk. Merkilega margar í ljósi þess að mestan hluta þess skólaárs dvaldi ég hjá ömmusystur minni í Vogahverfinu sökum kennaraverkfalls. En nóg um það. Haustið er komið og það sést á litlu sniglunum með húsin sín á bakinu, full af … Hvað tók maður með sér í skólann í fyrsta bekk? Pennaveski og nesti? Ég man að pennaveskin voru öll seld með blekhylkjum sem var mikið sport því þau voru stranglega bönnuð, enda sprungu þau hægri vinstri. Sumir krakkar borðuðu Skólajógúrt en ég fékk aldrei þannig því það var sykurleðja. Skólajógúrtin sprungu gjarnan eins og blekhylkin. Sá hlær best sem síðast hlær. Já,það er sem sagt komið haust. Mér þykir svo vænt um haustið. Það markar einhver tímamót, nýtt upphaf, eitthvað spennandi. Og í loftinu er lykt sem vekur upp gamlar minningar. Blautt malbik og dálítið kaldir nebbar. Sumir fara í berjamó. Ég útbjó í fyrsta skipti krækiberjasaft um daginn. Mér datt í hug að kalla það „Haustasaft“. Jæja. Heilsið endilega öllum rómi blíðum, en einkum ef að fyrir ber lítil börn með skólatöskur. Berið þeim kveðju mína, ég þakka þeim kærlega fyrir að hafa fært okkur haustið á ný. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Halla Þórlaug Óskarsdóttir Mest lesið Hvers á Öskjuhlíðin að gjalda? Eyþór Máni Steinarsson Skoðun Donald Trump Jovana Pavlović Skoðun Fjórföldun á stuðningi við Guðrúnu Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Góður fyrsti aldarfjórðungur Jón Guðni Ómarsson Skoðun Hvammsvirkjun og framtíð laxfiska í Þjórsá Dr. Margaret Filardo,Elvar Örn Friðriksson Skoðun Börn í vanda Ebba Margrét Magnúsdóttir Skoðun Af hverju stríð? Helga Þórólfsdóttir Skoðun Kjarkur og kraftur til að breyta Áslaug Hulda Jónsdóttir,Eydís Arna Líndal Skoðun Mýtan um óumflýjanlegan rússneskan sigur Erlingur Erlingsson Skoðun Stækkum Sjálfstæðisflokkinn Guðrún Hafsteinsdóttir Skoðun
Það er komið haust. Ég get sagt það fullum fetum án þess að blikna. Ástæðan fyrir því að ég veit það fyrir víst er að ég er búin að sjá að minnsta kosti tuttugu myndir af litlum börnum með gríðarstórar skólatöskur á bakinu á Facebook. Þau eru grunlaus og eftirvæntingarfull á leið út í sinn fyrsta skóladag. Ég veit það líka af því að strákurinn í næstu íbúð er aftur farinn að æfa Entertainer á píanóið. Ég man ótrúlega margt úr æsku. Ég á minningar frá flutningum úr Breiðholtinu yfir í Þingholtin, en þá var ég ekki orðin þriggja ára. Ég man eftir ítalska kokkinum á leikskólanum og þegar ég fór einsömul í róluna í næsta garði þegar ég var nýflutt. Ég man eftir rauðri blöðru sem slapp upp í loftið á leikvellinum, man þegar ég kynntist bestu vinkonu minni á leikskólanum og ég man eftir fyrstu skólatöskunni minni. En ég man ekki eftir fyrsta skóladeginum. Þó á ég margar minningar úr fyrsta bekk. Merkilega margar í ljósi þess að mestan hluta þess skólaárs dvaldi ég hjá ömmusystur minni í Vogahverfinu sökum kennaraverkfalls. En nóg um það. Haustið er komið og það sést á litlu sniglunum með húsin sín á bakinu, full af … Hvað tók maður með sér í skólann í fyrsta bekk? Pennaveski og nesti? Ég man að pennaveskin voru öll seld með blekhylkjum sem var mikið sport því þau voru stranglega bönnuð, enda sprungu þau hægri vinstri. Sumir krakkar borðuðu Skólajógúrt en ég fékk aldrei þannig því það var sykurleðja. Skólajógúrtin sprungu gjarnan eins og blekhylkin. Sá hlær best sem síðast hlær. Já,það er sem sagt komið haust. Mér þykir svo vænt um haustið. Það markar einhver tímamót, nýtt upphaf, eitthvað spennandi. Og í loftinu er lykt sem vekur upp gamlar minningar. Blautt malbik og dálítið kaldir nebbar. Sumir fara í berjamó. Ég útbjó í fyrsta skipti krækiberjasaft um daginn. Mér datt í hug að kalla það „Haustasaft“. Jæja. Heilsið endilega öllum rómi blíðum, en einkum ef að fyrir ber lítil börn með skólatöskur. Berið þeim kveðju mína, ég þakka þeim kærlega fyrir að hafa fært okkur haustið á ný.