Viðskipti innlent

Gagnaverið að fyllast af Bitcoin-námuvélum

Haraldur Guðmundsson skrifar
Gagnaverið er reist á Fitjum í Reykjanesbæ en byggingu þess lauk í maí.
Gagnaverið er reist á Fitjum í Reykjanesbæ en byggingu þess lauk í maí. Vísir/GVA
Um tuttugu erlend fyrirtæki sem stunda Bitcoin-námastarfsemi hafa samið við Advania um að leigja aðstöðu í gagnaveri fyrirtækisins í Reykjanesbæ. Gagnaverið var byggt síðastliðið vor en þar eru nú yfir 2.500 tölvur sem vinna rafmyntina og nota til þess 8,5 megavött af raforku.

„Við byggðum tvö hús í Reykjanesbæ og erum nánast búin að fylla þau af þessum Bitcoin-námuvélum,“ segir Eyjólfur Magnús Kristinsson, framkvæmdastjóri hjá Advania og formaður Samtaka íslenskra gagnavera.

Eyjólfur útskýrir að tölvurnar í gagnaverinu búi til nýjar Bitcoin-myntir eða „grafi þær upp“. Enginn opinber aðili eða seðlabanki gefur myntina út eða prentar hana en í staðinn eru tölvur notaðar til að leysa flóknar stærðfræðiformúlur sem þurfa að liggja fyrir þegar ný mynt er gefin út. Tölvurnar í gagnaverinu eru að sögn Eyjólfs sérhannaðar til að leysa þessar formúlur.

„Þegar ein mynt er notuð skapast pláss til að búa til nýja og það eru fleiri hundruð fyrirtæki í heiminum sem eru alltaf að búa til ný Bitcoin. Fyrirtækin fá þá hluta af nýslegnu myntinni í sinn hlut og því er mikil samkeppni um þetta. Þetta eru slík fyrirtæki sem eru inni hjá okkur og þau eru stanslaust að búa þetta til.“

Eyjólfur segir Advania hafa ráðist í byggingu gagnaversins þegar samningar við nokkur af fyrirtækjunum lágu fyrir. Gagnaverið er um 2.500 fermetrar að stærð og var byggt á einum og hálfum mánuði.

„Það er ekkert launungarmál að mesta eftirspurnin eftir plássi í gagnaverum kemur frá Bitcoin-fyrirtækjum,“ segir Eyjólfur.

Fyrirtækin leituðu að sögn Eyjólfs hingað til lands aðallega vegna þess hversu hagkvæmt það er að kæla tölvurnar í gagnaverum hér á landi.

„Þeir sem eru að koma hingað vegna Bitcoin eru að sækjast eftir tiltölulega hagstæðu rafmagni. Hér er ekki hagstæðasta rafmagnið því menn geta fengið það ódýrara í löndum eins Bandaríkjunum, Rússlandi og Svíþjóð. Við höfum hins vegar náð mjög góðum tökum á kælitækninni og erum að nota tiltölulega litla orku í að kæla búnaðinn sem lækkar rafmagnsreikninginn töluvert.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×