Íslenski boltinn

FH getur orðið meistari í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
FH hefur unnið sex Íslandsmeistaratitla frá árinu 2004.
FH hefur unnið sex Íslandsmeistaratitla frá árinu 2004. fréttablaðið/valli
Næstsíðasta umferð tímabilsins í Pepsi-deild karla fer fram í dag en enn er barist um titilinn, síðasta Evrópusætið og að forðast fallið með Þórsurum í 1. deildina.

FH-ingar geta tryggt sér titilinn með sigri á Val á Vodafone-vellinum ef Stjörnunni mistekst að vinna Fram á sama tíma. Toppliðin tvö eru reyndar bæði taplaus eftir 20 umferðir í sumar en það hefur aldrei áður gerst í sögu deildarinnar. FH er efst með 48 stig en Stjarnan er með 46.

Liðin í 2.-4. sæti deildarinnar keppa í forkeppni Evrópudeildar UEFA á næsta tímabili. KR er öruggt með þriðja sætið en Víkingur (30 stig), Valur (28 stig), Fylkir (25 stig) og Breiðablik (24 stig) eiga enn öll tölfræðilegan möguleika á fjórða sætinu.

Víkingar mæta KR-ingum og tryggja sér síðasta Evrópusætið með sigri, takist FH að vinna Val á sama tíma.

ÍBV (22 stig), Fjölnir (20 stig), Keflavík (19 stig) og Fram (18 stig) eiga svo öll möguleika á að falla með botnliði Þórs en ljóst er að Akureyringar munu spila í 1. deildinni næsta sumar.

Auk þess að vera með fæst stig í þessum hópi er Fram einnig með lakasta markahlutfallið. Liðið þarf því sárlega á stigum að halda gegn Stjörnunni því það getur fallið á morgun með tapi ef Keflavík og Fjölnir vinna sína leiki.

Leikirnir hefjast klukkan 14.00 og verða allir í beinni textalýsingu á Vísi. Þá verða tveir leikir í beinni sjónvarpsútsendingu; Valur - FH á Stöð 2 Sport og leikur Stjörnunnar og Fram á Stöð 2 Sport 3. Lokaumferðin fer svo fram laugardaginn 4. október.

21. umferðin verður svo gerð upp í Pepsi-mörkunum klukkan 21.00 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×