Körfubolti

Stóla á ungu strákana sína í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pétur Rúnar Birgisson er fæddur árið 1996.
Pétur Rúnar Birgisson er fæddur árið 1996. Vísir/Valli
Nýliðar Tindastóls hafa byrjað vel í Dominos-deildinni í ár og eru Stólarnir eitt af fjórum liðum sem hafa unnið tvo fyrstu leiki sína. Tindastólsliðið vann endurkomusigur á Stjörnunni á útivelli í fyrstu umferð og fylgdi því síðan eftir með sannfærandi heimasigri á Þór í Síkinu.

Tveir ungir og stórefnilegir leikmenn, hinn 20 ára Ingvi Rafn Ingvarsson og hinn 18 ára Pétur Rúnar Birgisson, fá mikið ábyrgðarhlutverk á Sauðárkróki í vetur og eru báðir byrjunarliðsbakverðir liðsins. Strákarnir hafa staðið sig vel í þessum tveimur fyrstu leikjum og eru báðir meðal efstu manna í stoðsendingum eftir tvær fyrstu umferðirnar.

Ingvi Rafn átti 11 stoðsendingar í sigrinum á Þór og hefur gefið flestar stoðsendingar (14 eða 7,0 í leik) af öllum leikmönnum deildarinnar en Pétur Rúnar sem var efstur í liðinu í stoðsendingum í sigrinum í Garðabæ er með þremur stoðsendingum minna í 3. til 6. sæti.

Ingvi Rafn Ingvarsson er fæddur árið 1994.Vísir/Valli
Pétur Rúnar skoraði 21 stig í sigrinum á Þór og var þá næststigahæsti leikmaður Tindastólsliðsins en hann hitti þá meðal annars úr fjórum af sjö þriggja stiga skotum sínum.

Ingvi Rafn hitti ekki vel í þeim leik en tók fimm sóknarfráköst auk 6 stiga og 11 stoðsendinga.

Reynslumeiri leikmenn Stólanna spila allir nær körfunni en þeir Ingvi og Pétur og þó að Darrel Keith Lewis hjálpi vissulega mikið við leikstjórnina þá er gaman að sjá Tindastólsmenn stóla á ungu strákana sína í Dominos-deildinni í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×