Malí er sjötta ríki Vestur-Afríku þar sem upp kemur tilfelli ebólusmits eftir að veiran greindist í dag í smábarni sem nýverið kom til landsins.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) segist líta svo á að neyðarástand hafi komið upp því barnið, tveggja ára gömul stúlka, var með blóðnasir á ferðalagi sínu til landsins frá Gíneu.
Stúlkan og amma hennar notuðust við almenningssamgöngur á ferðalaginu.
Í tilkynningu frá WHO í gær kemur fram að þær hafi ferðast um nokkurn fjölda þorpa á leið sinni og hafi stoppað í tvo tíma í Bamako, höfuðborg Malí, áður en komið var til Keyes í vesturhluta landsins.
Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum reyndu aftur á móti í gær að slá á ótta fólks þótt ebóla hafi greinst í lækni í New York-borg þar sem milljónir notast við almenningssamgöngur.
Litlar líkur séu á smiti þar því veiran smitist bara með líkamsvessum á borð við munnvatn, blóð, ælu eða saur. Þegar vessarnir þorna drepist vírusinn á nokkrum klukkustundum. Fólk smiti ekki nema það sé veikt.
Vestra var líka upplýst í gær að bandarísku hjúkrunarfræðingarnir tveir sem smituðust af ebólu á sjúkrahúsi í Dallas í byrjun mánaðarins séu nú báðir lausir við veiruna.
Ebóla greind í sjötta landi Afríku
Óli Kristján Ármannsson skrifar
