Álfar á jólanótt 1. nóvember 2014 00:01 Á bæ einum í Eyjafirði varð sá atburður hverja jólanótt þegar fólk fór til kirkju að sá sem heima var á bænum var á einhverja síðu illa útleikinn, dauður eða vitstola o. s. frv. Var það þá eina jólanótt að fólk fór til kirkju að vanda og var ekki eftir heima nema einn kvenmaður. Svo um nóttina þegar fólkið var komið á stað settist konan við rúm sitt og fór að lesa í bók, en kertaljós brann þar á borði hjá henni. En þegar hún hafði þannig setið um stund komu þrjú börn inn á baðstofugólfið og fóru að leika sér; léku þau sér á marga vegu og færðu loksins leikinn upp á pallinn þar sem stúlkan sat og svo fóru þau að klifra upp um hana og leika sér við hana. Hafði hún látið sem hún sæi þau ekki, en nú var hún blíð við þau og klappaði á hendurnar á þeim. Fóru þau þá að fitla í ljósið; tók hún þá kertið og skipti því í fjóra parta og kveikti á hverjum stúf, fékk svo sínu barni hvern kertispart, en hafði einn stúfinn sjálf. Urðu börnin þá mikið kát og hlupu burtu hvert með sitt ljós. En að stundu liðinni kom inn karlmaður og settist hjá stúlkunni og var mikið blíður í bragði, en hún lét sem hún sæi hann ekki. Gjörðist hann þá frekari í ástartilraunum sínum. Varð hún þá alvarleg og sagði honum væri ekki til neins að fara þess á leit, "því ég sinni aldeilis ekki ástaratlotum þínum," mælti hún. Sneyptist hann þá og fór því næst í burtu. En að stundu liðinni kom inn kona bláklædd og hélt á stokk undir hendinni; gekk hún að stúlkunni og mælti: "Litlu get ég nú launað þér fyrir það sem þú varst góð við börnin mín og ekki góð við manninn minn; samt svo ég sýni lit á því skaltu eiga fötin sem eru í stokknum þeim arna, en varastu nokkur viti hvernin á þeim stendur fyrr en næstu jól eru liðin." Fékk hún stúlkunni þá stokkinn og fór þar eftir burtu. Leið svo til þess fólkið kom frá kirkjunni. Urðu menn þá glaðir er þeir sáu stúlkuna glaða og heila á húfi, en engum sagði hún frá því sem fyrir hana bar. Leið svo tíðin til þess um sumarið. Einn þurrkdag þá breiddi stúlkan fötin úr stokknum út, en er bóndakonan sá fötin varð hún uppvæg af ágirnd á fötunum og spurði stúlkuna hvar hún hefði fengið þau. En hin kvað hana það engu skipta. Þóttist þá konan vita að hún hefði eignast þau um jólin. Og um næstu jól þegar fólk fór til kirkju sagði bóndakona að hún ætlaði að vera heima. Þótti bónda það illa og vildi hún færi með sér, en hún kvaðst heima vera og hlaut svo að standa. Fór síðan allt fólk til kirkju á jólanóttina nema bóndakonan sem var heima. Sat hún þá inni og las í bók og hafði hjá sér kertaljós. Komu þá þrjú börn inn á gólfið og fóru að leika sér, en er þau höfðu leikið sér þar um stund færðu þau leikinn upp til konunnar og léku sem áður; varð hún þá úfin við og hastaði á þau, en þau héldu áfram og fóru að fitla í ljósið; gerði þá konan sér alvöru, tók vönd og flengdi börnin. Hlupu þau þá grátandi í burtu. En að stundu liðinni kom inn maður og settist hjá konunni hýr í viðmóti; var hún engu síður blíð við hann og lét hann mótmælalaust fá öll þau ástaratlot er hann vildi. En er þau höfðu leikið sem þau lysti fór hann burtu, og brátt kom inn kona, gekk að bóndakonu og tók í hönd henni og mælti: "Er þetta ekki hendin sem þú flengdir börnin mín með og klappaðir manninum mínum?" Gat hin þá ekki borið það af sér. Mælti þá sú aðkomna: "Það legg ég á að þessi hönd skal visna og þér að bana verða. Skalt þú hafa það fyrir illsku þína." Síðan fór hún burtu, en konan beið þess að fólkið kom frá kirkjunni. Hafði hún þá fengið vanheilsu og var hendin orðin afllaus. Sagði hún þá frá því er fyrir hana bar um nóttina. Sagði þá og vinnukonan frá því er fram við hana kom hina fyrri jólanótt og sýndi þá fötin og vóru það kvenföt og svo góð að menn þóktust valla hafa séð svo góð klæði, og naut hún þeirra vel og lengi, en vanheilsa konunnar fór í vöxt þar til hún dó af því um síðir. Jól Mest lesið Ömmumatur sem klikkar aldrei Jól Jóladagatal Hurðaskellis og Skjóðu - 4. desember Jól Verður ekki mikið vör við jólahátíðina Jól Bjart er yfir Betlehem Jól Maður varð að fá bragð af Íslandi Jól Smáréttir sem gleðja bragðlaukana Jól Les jólakveðjurnar í síðasta sinn Jól Fastar hefðir fylgja piparkökubaks Jól Jólalag dagsins: Hátíð í bæ með Hauki Heiðari í Diktu Jól Góð bók og nart Jól
Á bæ einum í Eyjafirði varð sá atburður hverja jólanótt þegar fólk fór til kirkju að sá sem heima var á bænum var á einhverja síðu illa útleikinn, dauður eða vitstola o. s. frv. Var það þá eina jólanótt að fólk fór til kirkju að vanda og var ekki eftir heima nema einn kvenmaður. Svo um nóttina þegar fólkið var komið á stað settist konan við rúm sitt og fór að lesa í bók, en kertaljós brann þar á borði hjá henni. En þegar hún hafði þannig setið um stund komu þrjú börn inn á baðstofugólfið og fóru að leika sér; léku þau sér á marga vegu og færðu loksins leikinn upp á pallinn þar sem stúlkan sat og svo fóru þau að klifra upp um hana og leika sér við hana. Hafði hún látið sem hún sæi þau ekki, en nú var hún blíð við þau og klappaði á hendurnar á þeim. Fóru þau þá að fitla í ljósið; tók hún þá kertið og skipti því í fjóra parta og kveikti á hverjum stúf, fékk svo sínu barni hvern kertispart, en hafði einn stúfinn sjálf. Urðu börnin þá mikið kát og hlupu burtu hvert með sitt ljós. En að stundu liðinni kom inn karlmaður og settist hjá stúlkunni og var mikið blíður í bragði, en hún lét sem hún sæi hann ekki. Gjörðist hann þá frekari í ástartilraunum sínum. Varð hún þá alvarleg og sagði honum væri ekki til neins að fara þess á leit, "því ég sinni aldeilis ekki ástaratlotum þínum," mælti hún. Sneyptist hann þá og fór því næst í burtu. En að stundu liðinni kom inn kona bláklædd og hélt á stokk undir hendinni; gekk hún að stúlkunni og mælti: "Litlu get ég nú launað þér fyrir það sem þú varst góð við börnin mín og ekki góð við manninn minn; samt svo ég sýni lit á því skaltu eiga fötin sem eru í stokknum þeim arna, en varastu nokkur viti hvernin á þeim stendur fyrr en næstu jól eru liðin." Fékk hún stúlkunni þá stokkinn og fór þar eftir burtu. Leið svo til þess fólkið kom frá kirkjunni. Urðu menn þá glaðir er þeir sáu stúlkuna glaða og heila á húfi, en engum sagði hún frá því sem fyrir hana bar. Leið svo tíðin til þess um sumarið. Einn þurrkdag þá breiddi stúlkan fötin úr stokknum út, en er bóndakonan sá fötin varð hún uppvæg af ágirnd á fötunum og spurði stúlkuna hvar hún hefði fengið þau. En hin kvað hana það engu skipta. Þóttist þá konan vita að hún hefði eignast þau um jólin. Og um næstu jól þegar fólk fór til kirkju sagði bóndakona að hún ætlaði að vera heima. Þótti bónda það illa og vildi hún færi með sér, en hún kvaðst heima vera og hlaut svo að standa. Fór síðan allt fólk til kirkju á jólanóttina nema bóndakonan sem var heima. Sat hún þá inni og las í bók og hafði hjá sér kertaljós. Komu þá þrjú börn inn á gólfið og fóru að leika sér, en er þau höfðu leikið sér þar um stund færðu þau leikinn upp til konunnar og léku sem áður; varð hún þá úfin við og hastaði á þau, en þau héldu áfram og fóru að fitla í ljósið; gerði þá konan sér alvöru, tók vönd og flengdi börnin. Hlupu þau þá grátandi í burtu. En að stundu liðinni kom inn maður og settist hjá konunni hýr í viðmóti; var hún engu síður blíð við hann og lét hann mótmælalaust fá öll þau ástaratlot er hann vildi. En er þau höfðu leikið sem þau lysti fór hann burtu, og brátt kom inn kona, gekk að bóndakonu og tók í hönd henni og mælti: "Er þetta ekki hendin sem þú flengdir börnin mín með og klappaðir manninum mínum?" Gat hin þá ekki borið það af sér. Mælti þá sú aðkomna: "Það legg ég á að þessi hönd skal visna og þér að bana verða. Skalt þú hafa það fyrir illsku þína." Síðan fór hún burtu, en konan beið þess að fólkið kom frá kirkjunni. Hafði hún þá fengið vanheilsu og var hendin orðin afllaus. Sagði hún þá frá því er fyrir hana bar um nóttina. Sagði þá og vinnukonan frá því er fram við hana kom hina fyrri jólanótt og sýndi þá fötin og vóru það kvenföt og svo góð að menn þóktust valla hafa séð svo góð klæði, og naut hún þeirra vel og lengi, en vanheilsa konunnar fór í vöxt þar til hún dó af því um síðir.
Jól Mest lesið Ömmumatur sem klikkar aldrei Jól Jóladagatal Hurðaskellis og Skjóðu - 4. desember Jól Verður ekki mikið vör við jólahátíðina Jól Bjart er yfir Betlehem Jól Maður varð að fá bragð af Íslandi Jól Smáréttir sem gleðja bragðlaukana Jól Les jólakveðjurnar í síðasta sinn Jól Fastar hefðir fylgja piparkökubaks Jól Jólalag dagsins: Hátíð í bæ með Hauki Heiðari í Diktu Jól Góð bók og nart Jól