Svo virðist sem báðar stríðandi fylkingar í Úkraínu dragi nú lappirnar í því að fylgja eftir skilmálum vopnahlésins sem hófst á sunnudag. Á meðal þeirra var að flytja öll þungavopn frá víglínunni og höfðu menn fram á mánudag til að uppfylla það skilyrði.
Á fréttavef BBC kemur þó fram að hvorugur aðilinn sé byrjaður að fjarlægja vígatólin og er haft eftir talsmönnum stjórnarhersins að það verði ekki gert fyrr en bardögum lýkur í bænum Debaltseve þar sem hart hefur verið barist þrátt fyrir samninginn.
Aðskilnaðarsinnar halda því fram að þeir eigi að stjórna bænum þar sem þeir hafi umkringt hann en herdeild stjórnarhersins er í sjálfum bænum og neitar að gefast upp. Að þessum bæ undanskildum virðist vopnahlé hafa verið virt að mestu, þótt einnig berist fregnir um átök við borgina Mariupol.
Talsmaður stjórnvalda í Berlín segir að leiðtogar Úkraínu, Rússlands og Þýskalands hafi komist að samkomulagi um að veita eftirlitsaðilum ÖSE aðgang að átakasvæðum, en þeir eiga að fylgjast með því að vopnahléinu sé framfylgt.
Aðskilnaðarsinnar hafa meinað þeim aðgang að Debaltseve.

