Körfubolti

Tvö af þremur með tap á bakinu í Höllina | Hvað gerir Stjarnan í kvöld?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Justin Shouse.
Justin Shouse. Vísir/Valli
Lokaleikur 18. umferðar Dominos-deildar karla í körfubolta fer fram í Grafarvoginum í kvöld þegar Fjölnir tekur á móti Stjörnunni í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3. Leikurinn hefst klukkan 19.15.

Þetta er síðasti leikur Stjörnuliðsins fyrir bikarúrslitaleikinn á móti KR á laugardaginn en hingað til hefur ekki gengið alltof vel hjá bikarúrslitaliðunum í síðasta leiknum sínum fyrir bikarúrslitin.

Kvennalið Grindavíkur og karlalið KR töpuðu bæði lokaleik sínum fyrir leikinn í Laugardalshöllinni en vængbrotið lið Keflavíkur vann hinsvegar öruggan sigur í síðasta leiknum sínum fyrir stóra leikinn um næstu helgi.

Grindavíkurkonur töpuðu 82-68 á útivelli á móti Val á laugadaginn þar sem hin bandaríska Kristina King skoraði bara fimm stig en KR-ingar töpuðu 87-84 á útivelli á móti Haukum í gær sem var aðeins annað tap liðsins á tímabilinu.

Keflavíkurkonur léku án hinnar bandarísku Carmen Tyson-Thomas og fyrirliðans Birnu Valgarðsdóttur þegar þær unnu 69-54 sigur á Hamar. Tyson-Thomas er rifbeinsbrotin og Birna tók út leikbann. Kvennalið Keflavíkur hefur ekki verið með fullskipað lið í síðustu þremur leikjum og það er ekki enn vitað hvort Tyson-Thomas geti eitthvað hjálpað til í Höllinni.

Nú er að sjá, hvað fjórða og síðasta liðið sem verður í bikarúrslitunum,  gerir sínum lokaleik sem verður á móti Fjölni í Íþróttamiðstöðinni í Grafarvogi í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×