Handbolti

Landsliðsfyrirliðinn og þjálfarinn mætast í úrslitaleik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson og Aron Kristjánsson mætast.
Guðjón Valur Sigurðsson og Aron Kristjánsson mætast. vísir/eva björk
Meistaradeildin í handbolta fer aftur af stað í kvöld, en tvær umferðir eru eftir af tíu í riðlakeppninni.

Íslendingaliðin Barcelona og KIF Kolding Köbenhavn eru í efstu tveimur sætum B-riðils Meistaradeildarinnar og mætast í úrslitaleik um efsta sætið á sunnudaginn.

Barcelona er í fyrsta sæti riðilsins með 13 stig en KIF Kolding er í öðru sæti með tíu stig. Þegar liðin mættust í Kaupmannahöfn fyrir áramót skildu þau jöfn, 27-27, í frábærum handboltaleik.

Þó ein umferð verði eftir þegar leik liðanna á sunnudagskvöldið er lokið má bóka sigra þeirra í lokaumferðinni.

Barcelona mætir tyrkneska liðinu Besiktas á útivelli en KIF tekur á móti sænska liðinu Alingsås á heimavelli. Þessi lið reka lestina í riðlinum og hafa bara unnið hvort annað.

Barcelona getur tryggt sér efsta sætið í riðlinum með sigri á sunnudaginn en KIF verður með pálmann í höndunum vinni það leikinn. Þá þarf það bara að leggja Svíana í lokaumferðinni til að hirða efsta sætið.

Viðureign Barcelona og KIF Kolding er leikur umferðarinnar í Meistaradeildinni og verður því sýndur í opinni og ókeypis netútsendingu á Laola TV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×