Rússneski stjórnarandstæðingurinn, Boris Nemtsov, sem skotinn var til bana í gær sagðist í viðtali við rússneskan vefmiðil óttast að Vladimir Pútín, Rússlandsforseti, myndi drepa hann.
Í viðtalinu, sem birtist þann 10. febrúar síðastliðinn sagði Nemtsov:
„Ég óttast að Pútín drepi mig. Ég trúi því að hann hafi komið stríðinu í Úkraínu af stað. Mér gæti ekki líkað verr við hann.“
Vinir Nemtsov segja að hann hafi nafnlausar morðhótanir á internetinu og að þær hafi valdið honum áhyggjum. Hann vildi hins vegar ekki að öryggis hans yrði gætt sérstaklega:
„Hann sagði „Ef þeir vilja drepa mig þá munu þeir drepa mig,““ er haft eftir vini Nemtsov á vef breska blaðsins The Independent.
Nemtsov var fyrrum aðstoðarforsætisráðherra Rússlands og einn helsti leiðtogi stjórnarandstöðunnar. Hann var skotinn fjórum sinnum í bakið af óþekktum árásarmanni í bíl þegar hann var á gangi með konu í miðborg Moskvu, skammt frá Kreml-höll í gærkvöldi.
Nemtsov hafði fyrr um daginn kallað eftir stuðningi við mótmælagöngu á sunnudag þar sem stríðinu í Úkraínu verður mótmælt.
Pútín hefur fordæmt morðið og hefur sjálfur tekið að sér yfirstjórn rannsóknarinnar.