Körfubolti

KR-ingar geta orðið deildarmeistarar í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Craion í bikarúrslitaleiknum um síðustu helgi.
Michael Craion í bikarúrslitaleiknum um síðustu helgi. Vísir/Þórdís Inga
KR-ingar gætu fagnað titli í kvöld í fyrsta leik sínum eftir vonbrigðin í bikarúrslitaleiknum í Laugardalshöllinni um síðustu helgi.

KR tekur á móti Skallagrími í kvöld í 19. umferð Dominos-deildar karla en KR er með fjögurra stiga forystu á Tindastól þegar fjórar umferðir eru eftir.

KR gæti tryggt sér deildarmeistaratitilinn í kvöld verði úrslitin liðinu hagstæð. KR þarf þá að vinna Borgnesinga sem og að treysta á að Grindavíkurliðið vinni Tindastól á Króknum.

KR væri þá með sex stiga forystu á Tindastól þegar sex stig væru eftir í pottinum en Stólarnir verða alltaf neðar en KR ef liðin enda með jafnmörg stig því KR er með betri stöðu úr innbyrðisleikjum liðanna.  KR vann með sex stigum á heimavelli sínum en Tindastóll vann KR með þremur stigum í leik liðanna fyrir norðan.

Það eru samt ekki miklar líkur á sigri Grindavíkur á Sauðárkróki í kvöld ef marka má úrslit vetrarins því Tindastólsliðið hefur unnið alla níu heimaleiki sína í deildinni í vetur þar á meðal sigur á toppliði KR.

KR missti frá sér bikarinn til Stjörnunnar á lokasprettinum í bikarúrslitaleiknum á laugardaginn en liðið missti einnig leikstjórnandann sinn Pavel Ermolinskij í meiðsli.

Það fara alls fjórir leikir fram klukkan 19.15 í kvöld því auk leiks KR og Skallagríms í DHL-höllinni í Frostaskjóli og leiks Tindastóls og Grindavíkur í Síkinu á Sauðárkróki þá mætast Njarðvík og Haukar í Ljónagryfjunni í Njarðvík og ÍR-ingar taka á móti Snæfelli í Hertz hellinum í Seljaskóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×