Körfubolti

Pavel: Stór munur á því að geta hlaupið og að geta spilað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel Ermolinskij, leikstjórnandi deildarmeistara KR, hefur ekki spilað með KR-ingum í síðustu þremur deildarleikjum og hann ætlar ekki að flýta sér til baka eftir meiðsli.

Pavel, sem meiddist á vöðva aftan í læri í bikarúrslitaleiknum á dögunum, fylgdist með félögum sínum frá hliðarlínunni í gær þegar KR-ingar unnu öruggan sigur á Þór og tóku síðan við deildarmeistarabikarnum í leikslok.

Guðjón Guðmundsson ræddi við Pavel Ermolinskij í gær og hann segist vera á batavegi.

„Þetta lítur ágætlega út. Ég er að ná að hreyfa mig ágætlega en það er stór munur á því að geta hlaupið og að geta spilað," sagði Pavel Ermolinskij við Gaupa í kvöldfréttum Stöðvar tvö.

„Mér sýnist nú strákarnir ekki þurfa voðalega mikið á mér að halda. Ég ætla að vera viss um að vera alveg klár þegar ég kem til baka. Það er ennþá töluvert í land og núna skiptir hver einasti dagur rosalegu máli," sagði Pavel.

„Ég er betri í dag en í gær og það heldur vonandi áfram svoleiðis. Vonandi verð ég klár þegar úrslitakeppnin kemur en það er engin leið til að segja til um það," sagði Pavel.


Tengdar fréttir

Pavel nær úrslitakeppninni | Rifan í lærinu fundin

Pavel Ermolinskij mun ekki vera með KR-liðinu í þremur síðustu leikjum liðsins í Dominos-deildinni samkvæmt frétt á heimasíðu KR en þar kemur einnig fram að að hann ætti að geta spilað með KR-liðinu í úrslitakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×