Körfubolti

Elvar Már spilar með Njarðvíkurliðinu í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elvar Már Friðriksson og Logi Gunnarsson náðu vel saman í fyrra.
Elvar Már Friðriksson og Logi Gunnarsson náðu vel saman í fyrra. Vísir/ÓskarÓ
Elvar Már Friðriksson verður með Njarðvíkurliðinu í kvöld þegar liðið mætir Stjörnunni í 21. og næstsíðustu umferð Dominos-deildar karla í körfubolta. Þetta kemur fram á karfan.is.

Njarðvíkingar eru í baráttunni við Hauka og Stjörnuna um að ná heimaleikjarétti í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar og það er ljóst að þessi liðsstyrkur gæti ekki komið á betri tíma fyrir Njarðvíkurliðið.

Elvar Már og félagar í LIU Brooklyn komust ekki lengra en í átta liða úrslit úrslitakeppninnar og verða ekki með í mars-æðinu í háskólaboltanum á þessu tímabili. Elvar gat því komið heim í vorfríinu og hefur ákveðið að hjálpa sínu félagi í gríðarlega mikilvægum leik í kvöld.

„Ég er búin að æfa já með liðinu og líður bara vel líkt og alltaf í Ljónagryfjunni.  Ég var fljótur að komast inn í sóknarkerfin og þetta er bara spennandi að fá að taka þátt í þessum tveimur leikjum sem eftir eru hjá liðinu núna." sagði Elvar Már Friðriksson í viðtali við Karfan.is.  

Elvar Már Friðriksson var á sínu fyrsta ári með LIU Brooklyn en hann var með 8,9 stig og 3,8 stoðsendingar að meðaltali í leik, var þriðji stigahæsti leikmaður liðsins og sá sem gaf flestar stoðsendingar.

Elvar sem fyrr segir í svo kölluðu vorfríi (Springbreak) frá skólanum og ákvað að koma til Íslands og njóta sín með fjölskyldunni.

„Það er nú ekki loku fyrir því skotið að hann verði jafnvel með okkur í úrslitakeppninni en við sjáum bara til hvernig þetta þróast en við hefjum leik á þessu," sagði Gunnar Örlygsson formaður Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur í viðtali við karfan.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×