Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - Keflavík 81-89 | Keflavík komst upp fyrir Grindavík

Árni Jóhannsson í Röstinni skrifar
vísir/daníel
Keflvíkingar unnu ansi mikilvægann sigur á Grindvíkingum í Grindavík í kvöld, 81-89. Með því jafna þeir Grindvíkinga að stigum í töflunni og auka möguleika sína á því að komast í úrslitin.

Góð byrjun á seinni hálfleik gerði gæfumuninn fyrir gestina í kvöld.

Leikurinn byrjaði fjörlega og skiptust liðin á að skora í fyrsta leikhluta. Bæði lið sýndu góða vörn á köflum og á móti góðann sóknarleik. Gestirnir náðu mestri forystu í fyrsta leikhluta þegar góður varnarleikur þeirra skilaði því að þeir náðu að skora fimm stig án þess að heimamenn næðu að svara. Grindvíkingar leiðréttu það og komust yfir einu stigi þegar skammt var til loka fyrsta leikhluta en gestirnir áttu lokaorðið og fóru til leikhlés með eitt stig í forskot.

Grindvíkingar voru fyrri úr startholunum í öðrum leikhluta og skoruðu sjö stig á móti tveimur gestanna og náðu síðan mest sjö stiga forskoti þegar annar leikhluti var hálfnaður. Þeir gátu þakkað góðum varnarleik fyrir og því að Keflvíkingar kólnuðu allsvakalega og vildi bara ekkert af skotum þeirra fara ofan í. Leikurinn var samt sem áður í það miklu jafnvægi að Keflvíkingar vöknuðu aftur til lífsins og náðu að saxa forskotið niður í eitt stig þegar flautað var til hálfleiks. Eins og hjá heimamönnum var það varnarleikur sem skilaði góðum leikkafla fyrir gestina. 43-42 í hálfleik Rodney Alexander var stigahæstur heimamanna með 14 stig. Damon Johnson og Davon Usher voru báðir komnir með níu stig fyrir gestina í hálfleik.

Það voru Keflvíkingar sem komu út í seinni hálfleikinn af meiri krafti. Þeir byrjuðu í pressuvörn sem þeir héldu út lungann úr hálfleiknum og kom það Grindvíkingum í töluverð vandræði í sókninni. Grindvíkingar voru síðan sofandi í vörninni og kostaði það liðið mikið í kvöld. Gestirnir náðu fljótt undirtökunum og náðu að bæta við forskot sitt alveg upp í tíu stig í þriðja leikhluta sem þeir héldu þangað til flautað var til leikhlés milli þriðja og fjórða leikhluta. Staðan var 54-63 fyrir Keflavík fyrir lokaleikhlutann en gestirnir unnu þriðja fjórðung 21-11 en leikurinn hafði verið í jafnvægi í fyrri hálfleik.

Sama var upp á teningnum í upphafi fjórða leikhluta og bættu gestirnir við og voru komnir með 16 stiga forskot þegar tvær og hálf mínúta var liðin af fjórða leikhluta. Sama uppskrift var að virka fyrir gestina en Grindvíkingar náðu illa að leysa pressuvörn Keflvíkinga. Á þessum tímapunkti virtist vera að heimamenn áttuðu sig á því að þeir væru að missa leikinn úr höndunum, þeir hertu vörn sína og voru að finna Rodney Alexander undir körfunni sem skilaði góðum stigum í hús. Heimamenn náðu 10-0 spretti og minnkuðu muninn niður í sex stig og fimm mínútur eftir af leiknum. Mikill hiti hljóp í leikmenn og hart barist eftir þennan sprett heimamanna, nokkrar tækni og óíþróttamannslegar villur voru dæmdar og skiptust liðin á að skora. Heimamenn náðu mest að minnka muninn niður í þrjú stig en eftir ískaldann þrist frá Þresti Jóhannssyni þá náðu Keflvíkingar að spila leikinn út af mikill skynsemi. Lokatölur urðu 81-89 fyrir Keflavík.

Með sigrinum jöfnuðu Keflvíkingar heimamenn að stigum í töflunni fyrir Dominos-deildina og komust upp í sjötta sætið. Þetta gerir það að verkum að það verða æsispennandi seinustu umferðirnar í baráttunni um lokaröðunina í úrslitakeppninni þetta árið þar sem að liðin í 6. til 8. sæti eru öll með 20 stig.

Stigahæstir voru Rodney Alexander hjá Grindavík með 34 stig ásamt 12 fráköstum og Damon Johnson og Davon Usher hjá Keflavík með 21 stig.

Grindavík-Keflavík 81-89 (24-25, 19-17, 11-21, 27-26)

Grindavík: Rodney Alexander 34/12 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 12/5 fráköst, Ólafur Ólafsson 10/5 fráköst, Þorsteinn Finnbogason 9, Oddur Rúnar Kristjánsson 7/4 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 4/8 fráköst, Jón Axel Guðmundsson 2/7 fráköst/5 stoðsendingar, Hinrik Guðbjartsson 2, Þorleifur Ólafsson 1.

Keflavík: Davon Usher 21/10 fráköst, Damon Johnson 21/5 fráköst, Guðmundur Jónsson 12, Valur Orri Valsson 10/5 stoðsendingar, Davíð Páll Hermannsson 8, Þröstur Leó Jóhannsson 8/5 fráköst, Gunnar Einarsson 4, Reggie Dupree 3, Arnar Freyr Jónsson 2.



Sverrir Þór Sverrisson: Við áttum ekkert skilið út úr þessum leik

„Bæði lið voru langt frá sínu besta í fyrri hálfleik og leikurinn í jafnvægi, svo mættu þeir bara sterkari til leiks í seinni hálfleik og við ekki og þess vegna vorum við alltaf á eftir. Við gerðum hrikalega mikið af klaufalegum mistökum, vorum seinir í vörninni og bara virkilega slakir í kvöld. Við áttum ekkert skilið út úr þessum leik“, var svar þjálfara Grindavíkur þegar leitað var útskýringa á slæmum seinni hálfleiks og tapi hans manna í kvöld.

Sverrir var því næst spurður hvort þetta myndi hafa einhver áhrif á seinustu leiki liðsins í deildinni.

„Það sem mér þætti eðlilegast væri að hver einn og einasti maður hjá okkur spýtti í lófanna og bætum í núna eftir svona slakan leik og mætum grimmari í næstu tvo leiki. Það er það eina sem er í boði ef við ætlum að vera með í úrslitakeppninni.“

„Það var ekkert sem kom á óvart varðandi Keflvíkinga í kvöld, þeir eru með góða leikmenn og flott lið. Vandamálið hjá okkur í kvöld var það að við vorum alltaf skrefi á eftir, við mættum ekki nógu klárir og er það bara ekki boðlegt af okkar hálfu“, sagði Sverrir að lokum.

Damon Johnson: Höfum trú á því að geta unnið

Damon Johnson var sammála blaðamanni að sigur liðsins í kvöld hafi verið ansi mikilvægur. „Þetta var ansi mikilvægur sigur fyrir liðið, við erum að berjast um að komast í úrslitakeppnina og í ljósi þess var leikurinn mikilvægur. Við höfum ekki spilað eins og við eigum að geta allt þetta tímabil en það sem skiptir máli er að vera að spila vel þegar mest liggur við.“

Damon talaði um að Keflvíkingar væru að finna fjölina sína á þessum tímapunkti „Við erum að koma saman sem lið og það er það sem skilaði þessum sigri í kvöld, þetta var kannski ekki fallegasti sigurinn en hann hafðist og það er það sem skiptir máli á þessum tímapunkti deildarinnar. Ef við komumst í úrslitakeppnina þá er mottóið alltaf að við spilum til að spila næsta dag og það er það sem Keflavík er að reyna.“

Hann var því næst spurður hversu langt hann gæti séð Keflvíkinga fara í mótinu. „Fyrst þú ert að spyrja mig þá segi ég að við ætlum að vinna þetta mót. Við höfum trú á því að við getum unnið mótið. KR er með gott lið sem og Tindastóll, það eru líklega fjögur eða fimm lið sem gætu unnið mótið en við erum með í því. Við höfum ekki spilað þannig allt árið en við erum að koma saman“

Leiklýsing: Grindavík - Keflavík

4. leikhluti | 81-89: Leiknum er lokið. Keflvíkingar kláruðu leikinn á vítalínunni og hafa góðan átta stiga sigur.

4. leikhluti | 81-87: Davon Usher var að næla sér í óíþróttamannslega villu með því að hrinda leikmanni heimamanna. Bæði vítin fóru niður og Grindavík á boltann þegar 30 sek eru eftir.

4. leikhluti | 77-85: Davon Usher var að fara langt með leikinn, hann stal boltanum og tróð með tilþrifum. 55 sek. eftir.

4. leikhluti | 77-83: Grindvíkingar náðu að minnka muninn í þrjú stig en Þröstur setti einn ískaldann þrist og jók muninn aftur í sex stig og Grindavík tekur leikhlé þegar 1:08 eru eftir.

4. leikhluti | 75-80: Grindvíkingar nýttu sóknina sína en gestirnir náðu sóknarfrákasti og villu. Vítin fóru bæði ofan í. 2:17 eftir.

4. leikhluti | 73-78: Það er skipst á körfum og síðan fær Davon Usher dæmda á sig tæknivillu. Vítið fer rétta leið og Grindvíkingar eiga boltann þegar 2:50 eru eftir.

4. leikhluti | 68-74: Gestirnir ná að stoppa í lekann en heimamenn líta mikið betur út þessi andartökin. Rodney Alexander fer mikinn undir körfunni og er að ná sér í villu körfu góða trekk í trekk. Vítin hafa ekki öll samt farið ofan í. 3:58 eftir.

4. leikhluti | 66-72: Leikhlé tekið. 10-0 sprettur frá heimamönnum og það verður allt vitlaust í sókninni. 5:07 eftir.

4. leikhluti | 63-72: 7-0 sprettur hjá Grindvíkingum, það er ekki hægt lýsa þessum leik lokið nærrum því strax. Ekki það að einhver hafi verið að hugsa það. 5:42 eftir.

4. leikhluti | 60-72: Grindvíkingar ná fjórum stigum í röð af vítalínunni. Það lítur betur út en það er mikið verk að vinna fyrir þá ætli þeir sér að ná í stigin. 6:16 eftir.

4. leikhluti | 56-72: Leikhlé tekið. Sverrir þjálfari heimamanna er brjálaður sem er skiljanlegt. Mikill sofandaháttur hjá heimamönnum. 7:37 eftir og gestirnir hafa 16 stiga forskot.

4. leikhluti | 56-69: Gestirnir eru að hafa hendur á sendingum heimamanna og vinna síðan boltann með því að fiska sóknarvillu. 8:04 eftir.

4. leikhluti | 56-65: Lokafjórðungurinn er hafinn og gestirnir eiga fyrstu körfuna. Heimamenn svara að bragði. Þetta verður vonandi spennandi. 9:22 eftir.

3. leikhluti | 54-63: Þriðja leikhluta er lokið. Keflvíkingar unnu forskot sitt með góðum varnarleik en í lok leikhlutans var skipst á að skora. Heimamenn áttu seinasta skotið sem geigaði. Gestirnir eru með níu stiga forskot þegar einn leikhluti er eftir.

3. leikhluti | 47-56: Keflvíkingar hafa verið að beita pressuvörn og svæðisvörn, Grindvíkingar hafa ekki náð að leysa þessi afbrigði með nógu góðum árangri. Sóknir gestanna mættu hinsvegar vera árangursríkari. 1:58 eftir eftir.

3. leikhluti | 45-54: Leikhlé tekið þegar 3:22 eru eftir. Keflvíkingar voru með klaufagang í sókninni og þjálfari þeirra var snöggur að taka leikhlé, ekki sáttur.

3. leikhluti | 45-54: Mikill sofandaháttur á Grindvíkingum. Valur Valsson keyrði að körfunni, lagði boltann ofan í og nældi sér í villu. Vítið fór rétta leið. 4:26 eftir.

3. leikhluti | 45-51: Grindvíkingar misnota þrjú víti í röð, það er ansi dýrt. Gestirnir bæta við forskotið. 5:30 eftir.

3. leikhluti | 43-49: Gestirnir auka við forskot sitt. Pressuvörn Keflvíkinga er að virka, Grindvíkingar eru í miklum vandræðu í sóknarleiknum. Þurfa oftar en ekki að nota alla skotklukkuna. 6:50 eftir.

3. leikhluti | 43-47: Leikhlé tekið af heimamönnu. Það er ekkert að gerast hjá heimamönnum. Þeir eru heppnir að hafa ekki misst gestina lengra frá sér. 7:37 eftir.

3. leikhluti | 43-47: Keflvíkingar pressa og það kemur heimamönnum í vandræði. Gestirnir komast fjórum stigum yfir. 8:50 eftir.

3. leikhluti | 43-42: Seinni hálfleikur er hafinn. Gestirnir eiga fyrstu sókn. 9:59 eftir.

2. leikhluti | 43-42: Það er kominn hálfleikur. Leikurinn er í góðu jafnvægi, bæði lið hafa á köflum spilað fantagóðann varnarleik sem hefur skilað sér í að það hafa komið tímabil þar sem lítið er skorað. Heimamenn áttu síðasta skot hálfleiksins og geigaði það þannig að forskot þeirra er ekki nema eitt stig í hálfleik. Þetta verður eitthvað í seinni.

2. leikhluti | 41-38: Nú taka gestirnir leikhlé, Grindvíkingar ná að halda gestunum frá sér þetta þremur til fjórum stigum en það er mikil harka í þessu og má lítið út af bera til að forystan skipti um hendur. 1:47 eftir.

2. leikhluti | 38-36: Varnarleikur gestanna orðinn ákafur eins og í fyrsta leikhluta en þeir eru klaufar í sókninni og því halda Grindvíkingar forskotinu. 2:50 eftir.

2. leikhluti | 36-34: Leikhlé tekið þegar 3:46 eru eftir. Þjálfari heimamanna er ekki ánægður enda gestirnir búnir að kveikja á sér aftur eftir magrar mínútur og ná að höggva forskotið niður í 2 stig.

2. leikhluti | 36-29: Þorleifur Ólafsson er að koma inn á en var kannski aðeins of spenntur og var rekinn aftur útaf en hleypt inn á þegar augnablikið var rét. Það þarf allt að vera gert eftir settum reglum. Hann uppskar mjög gott lófatak. 5:05 eftir.

2. leikhluti | 34-29: Keflvíkingar hafa bætt við tveimur stigum en Grindvíkingar svöruðu því með þriggja stiga körfu eftir frábært spil. Það er aðeins meiri stemmning í herbúðum Grindvíkinga núna. 5:19 eftir.

2. leikhluti | 31-27: Eitthvað kul í leikmönnum núna og boltinn vill ekki ofan í. Einnig er verið að missa boltann klaufalega og á það við bæði lið en það er fjör í þessu. 6:45 eftir.

2. leikhluti | 31-27: Heimamenn eiga næstu sjö stig og ná forskotinu aftur. Þetta er stærsta forysta heimamanna í dag. 8:22 eftir.

2. leikur | 24-27: Annar leikhluti er hafinn og gestirnir byrja á því að stela boltanum og leggja boltann í körfuna. 9:44 eftir.

1. leikur | 24-25: Leikhlutanum er lokið. Keflavík átti seinasta skotið sem geigaði en þeir höfðu náð að setja eina körfu og halda því eins stigs forskoti. Það er búið að vera fínasta barátta í þessu. Heimamenn ættu að nýta það betur að ná fleiri sóknarfráköstum og fá þannig annað tækifæri í sóknum sínum.

1. leikur | 24-23: Heimamenn eru að ná í slatta af sóknarfráköstum og þurfa gestirnir að laga það vandamál áður en það verður stærra. Heimamenn er með eitt stig í forskot. 1 mín. eftir.

1. leikur | 20-23: Þá er aftur skipst á körfum og en Keflvíkingar halda þriggja stiga forskoti. Seinustu stig gestanna komu frá Usher af vítalínunni. 1:58 eftir.

1. leikur | 15-20: Keflvíkingar ná stærsta forskoti leiksins. Vörn þeirra hefur aukist í ákafa. 2:55 eftir.

1. leikur | 15-15: Liðin bæði skiptast á að skora og skiptast á að klikka á sóknum sínum. Fínn hraði og jafnt á öllum tölum. 4 mín. eftir.

1. leikur | 11-11: Enn er skipst á að skora, heimamenn hafa verið gripnir í bólinu með hröðum upphlaupum gestanna. Keflvíkingar hins vegar eru að leyfa Grindvíkingum of mikið inn í teig. 5:50 eftir.

1. leikur | 5-4: Ágætis tempó í þessu á fyrstu mínútunum. Liðin skiptast á körfum en bæði lið hafa misst boltann klaufalega líka. 7:50 eftir.

1. leikur | 1-2: Gestirnir klikkuðu á sinni fyrstu sókn og Grindvíkingar náðu sér í tvö vítaskot en aðeins eitt fór niður. Gestirnir voru fljótir að svara og taka forskotið. 9:38 eftir.

1. leikur | 0-0: Leikurinn er byrjaður og það eru Keflvíkingar sem ná fyrstu sókn. 9:59.

Fyrir leik: Tæpar 10 í leik og bæði lið eru að koma út úr búningsklefum sínum, búnir að taka við loka fyrirskipunum þjálfara sinna og leggja af stað í seinustu lay-up ferðirnar fyrir leik. Mikið væri gaman að sjá fulla stúku en það er enn nóg pláss eftir í Röstinni.

Fyrir leik: Keflvíkingar áttu ansi auðveldan dag á skrifstofunni í síðustu umferð þegar þeir tóku á móti Fjölni í Keflavík. Leikar enduðu 99-81 fyrir Keflavík og var leikurinn frekar auðveldur fyrir heimamenn en það þarf að klára þessa leiki líka. Grindvíkingar hinsvegar stóðu í stórræðum, þeir fóru á Sauðárkrók og sóttu tvö stig í greipar Tindastóls. Grindvíkingar unnu 10 stiga sigur, 84-94, sem getur reynst ansi dýrmætur þegar lokastaðan er tekin eftir viku.

Fyrir leik: Helstu fréttirnar af leikmannamálum Grindvíkinga í kvöld eru þær að Þorleifur Ólafsson er aftur í búning eftir nærrum því ár á hliðarlínunni. Hann meiddist illa í úrslitakeppninni í fyrra og líklega iðar hann í skinninu að leikar hefjist.

Fyrir leik: Auk þess að vera nágrannaslagur þá er slagurinn um sæti í úrslitakeppninni og einnig um stöðu innan þessara átta sæta sem gefa sæti í aðalmótinu. Eins og segir í kynningunni að ofan þá eru liðin í kvöld í 7. og 8. sæti deildarinnar og munar tveimur stigum á þeim. Það er því mikið undir og eins og svo oft áður von á hörkuleik.

Fyrir leik: Komiði sæl og blessuð. Hér verður leik Grindavíkur og Keflavíkur lýst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×