Sport

Elsa Guðrún og Sævar meistarar | Skíðamót Íslands hófst í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Ernir
Elsa Guðrún Jónsdóttir og Sævar Birgisson, sem keppa bæði fyrir Skíðafélag Ólafsfjarðar, urðu í dag Íslandsmeistarar í sprettgöngu en Skíðamót Íslands var sett á Ólafsfirði fyrr í dag.

Gengið var í kringum tjörnina í miðbæ Ólafsfjarðar og var hringurinn 500 m langur. Í kvennaflokki var gengið tvo hringi en þrjá í karlaflokki.

Elsa Guðrún hafði nokkra yfirburði í kvennaflokki en Jónína Kristjánsdóttir og Svava Jónsdóttir, systir Elsu Guðrúnar, komu næstar. Allar koma frá Ólafsfirði.

Sævar hafði betur eftir spennandi keppni við Brynjar Leó Kristinsson frá Akureyri. Þeir skiptust á að vera í forystu framan af en Sævar náði henni á síðasta hring og vann góðan sigur. Dagur Benediktsson frá Ísafirði vann brons.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×